136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[15:37]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við ræðum þetta mál í tvennu lagi, 2. umr. hófst síðdegis í gær og henni var frestað í miðjum klíðum kl. 20 mínútur fyrir 8 í gærkvöldi þannig að það er ekki nema von að það slitni nokkuð samhengið.

Í ræðu minni í gær, í umfjöllun um þetta mál, tók ég skýrt fram að hér væri verið að upphefja bankaleynd gagnvart hinum sérstaka saksóknara. Hér er að sjálfsögðu ekki verið að ræða um almennt afnám bankaleyndar. Við erum að ræða afmarkað mál, hv. þm. Jón Magnússon.

Það sem kom öllum, held ég, í opna skjöldu var að þeir aðilar sem með frumvarpinu eru skikkaðir til að veita upplýsingar til embættis sérstaks saksóknara, eins þótt um þau atriði ríki bankaleynd — sem sagt skilanefndir, nýju bankaráðin, Fjármálaeftirlitið og þeir sem vinna að greiðslustöðvun, nauðasamningum og gjaldþrotum — skuli hafa beitt fyrir sig bankaleynd í rannsókn á hruninu. Það er fráleitt og ekki verður of oft ítrekað að nauðsynlegt er að koma þessu máli í gegnum þingið og það strax.