136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[15:48]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það sem hefur komið fram hér í umræðunni að það er mjög mikilvægt að embætti sérstaks saksóknara fari vel af stað og geti farið að rannsaka mál. Embættið hefur ekki náð miklu flugi hingað til og er ekki við sérstakan saksóknara að sakast í því sambandi heldur lagaumgjörðina sem við héldum að væri í lagi en kemur svo í ljós að er alls ekki. Á sínum tíma þegar við samþykktum lögin virðist hafa átt sér stað mikil togstreita á milli ráðherra um hvaða heimildir sérstakur saksóknari ætti að fá og vil ég aðeins gera það að umtalsefni.

Þegar við vorum að ræða hér málið við 1. umr. kom fram hjá hv. þm. Birni Bjarnasyni að þegar hann var í embætti dómsmálaráðherra hefði hann viljað fá meiri heimildir til sérstaks saksóknara strax í upphafi en að það hafi ekki fengist vegna andstöðu þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra, Björgvins G. Sigurðssonar. Mér fannst þetta mjög sérstakt og það urðu hér nokkur andsvör af þessu tilefni þar sem mér fannst frekar óljóst hvað væri rétt og hvað væri rangt í þessum málum.

Síðan tókum við málið til vinnslu í allsherjarnefnd og þar kemur í ljós að sérstakur saksóknari hefur verið að óska eftir gögnum sem hann ekki fær af því að lagaumgjörðin er of veik. Þar kemur fram og það kemur líka fram í fjölmiðlum að sérstakur saksóknari, Ólafur Þór Hauksson, sem er að rannsaka eða á að rannsaka bankahrunið og hvort þar hafi verið saknæmt athæfi á ferðinni, þ.e. að hans embætti hefur óskað eftir gögnum og ekki fengið hjá Fjármálaeftirlitinu. Þessi gögn sem sérstakur saksóknari hafði óskað eftir voru endurskoðunarskýrslur bankanna sem Fjármálaeftirlitið hefur haft á sínu borði. Óskað var eftir þessum skýrslum formlega 13. febrúar, 15. febrúar og 17. febrúar og svo var sent ítrekunarbréf síðast 25. febrúar. Það hefur komið fram i fjölmiðlum að það hafi ekki borist formlegt svar frá Fjármálaeftirlitinu varðandi þessar beiðnir sérstaks saksóknara.

Það er auðvitað, virðulegur forseti, fyrir neðan allar hellur að mínu mati að upplifa það að embætti sem við teljum að sé mjög mikilvægt fái ekki gögn sem embættið sjálft telur vera mikilvægt að fá til að átta sig á baksviði bankahrunsins. Það hefur komið fram hjá sérstökum saksóknara, Ólafi Þór Haukssyni, opinberlega að hann leggi áherslu á að embættið fái aðgang að þessum skýrslum og segir orðrétt, svo vitnað sé hér í blaðaviðtal, með leyfi virðulegs forseta:

„Þetta er glugginn inn í starfsemi bankanna dagana sem þeir féllu.“

Skýrslurnar hafa því gildi í sjálfu sér og það er alveg ljóst að sérstakur saksóknari telur ekki að það sé nóg að fá skýrslurnar hreinsaðar, þ.e. að fá þær í hendurnar eftir að Fjármálaeftirlitið hefur síað einhverjar upplýsingar úr þeim heldur telur hann mikilvægt að fá þær eins og þær líta út þegar þær koma frá endurskoðunarfyrirtækjunum. Það er því allt með miklum ólíkindum, virðulegur forseti, hvernig málin hafa þróast.

Það er alveg ljóst að Fjármálaeftirlitið hefur verið að bera fyrir sig bankaleynd. Væntanlega er tregðan við að afhenda gögnin vegna bankaleyndar eða þagnarskyldu og þess vegna erum við núna að veita sérstökum saksóknara víðtækari heimildir til þess að hann þurfi ekki að grípa jafnvel til mjög drastískra aðgerða eins og að haldleggja gögn. Það hefði jafnvel verið hugsanleg leið fyrir sérstakan saksóknara að mæta inn í Fjármálaeftirlitið og bara taka gögnin. En menn geta séð fyrir sér hvaða uppnám það hefði vakið í samfélaginu.

Í 1. gr. frumvarpsins er kveðið skýrt á um þetta, með leyfi virðulegs forseta:

„Sé þess óskað skulu þessar stofnanir, svo og skilanefndir og aðrir sem vinna að greiðslustöðvun, nauðasamningi eða gjaldþrotaskiptum fjármálafyrirtækja, láta hinum sérstaka saksóknara í té upplýsingar um stöðu annarra mála en greinir í 1. málsl. og gögn sem þessir aðilar hafa undir höndum og hinn sérstaki saksóknari telur að hafi þýðingu við rannsókn sakamáls eða ákvarðanatöku um hvort rétt sé að hefja slíka rannsókn.“

Varðandi það hvaða stofnanir „þessar stofnanir“ eru þá er þar meðal annars Fjármálaeftirlitið undir en einnig Samkeppniseftirlitið, skattrannsóknarstjóri ríkisins og fleiri.

Það er tekið fram hérna að með þessum gögnum er meðal annars átt við skýrslur, minnisblöð, bókanir og samninga. Svo kemur hérna kannski aðalatriðið. Það er svona, með leyfi forseta:

„Skylt er að verða við kröfu hins sérstaka saksóknara um að láta í té upplýsingar eða gögn þótt þau séu háð þagnarskyldu, t.d. samkvæmt reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja, og er slík afhending óháð því hvort meint brot hafi verið kærð til lögreglu.“

Þótt þessi gögn séu því háð þagnarskyldu þá skal Fjármálaeftirlitið hér eftir veita hinum sérstaka saksóknara þessi gögn.

Ég kallaði eftir því, virðulegur forseti, í allsherjarnefnd að fá bakgrunnsgögn varðandi þá orðræðu sem átti sér stað hér á milli hv. þm. Björns Bjarnasonar og hæstv. utanríkisráðherra Össurar Skarphéðinssonar við 1. umr., um hvort það væri rétt eða rangt að viðskiptaráðuneytið undir forustu hæstv. viðskiptaráðherra Björgvins G. Sigurðssonar á sínum tíma — þ.e. hvort það væri rétt að hv. þm. Björn Bjarnason hefði sem dómsmálaráðherra viljað fá víðtækari heimildir eða ekki. Gögnin bárust ekki inn í nefndina en mér tókst síðan að fá nefndarritara til að útvega þessi gögn og mig langar aðeins að vitna í þau gögn. Þetta er minnisblað frá viðskiptaráðuneytinu til dómsmálaráðuneytisins frá 3. nóvember 2008 varðandi frumvarp til laga um sérstakan saksóknara og valdheimildir.

Ég ætla ekki að taka tíma í að lesa upp úr þessu minnisblaði mikið. Það er kaflaskipt og nokkuð ítarlegt. Af því öllu má ráða, hvar sem maður ber niður í þessu minnisblaði, að viðskiptaráðuneytið var nú ekki að liðka fyrir því að sérstakur saksóknari fengi miklar heimildir. Þarna er verið að tala um valdmörk á milli stofnana, tala um að það sé allt mjög óskýrt þetta frumvarp sem verið er að vinna í dómsmálaráðuneytinu og svo framvegis þannig að það er því alveg greinilegt að hælarnir eru niðri, ef það má orða það þannig, í viðskiptaráðuneytinu gagnvart valdheimildum sérstaks saksóknara.

Í lok minnisblaðsins kemur það sem er mest klippt og skorið í þessu máli varðandi þagnarskylduna og það sem við erum núna að veita sérstökum saksóknara með lagafrumvarpinu sem við erum að fjalla um. Mig langar að lesa niðurlag minnisblaðsins sem kemur frá viðskiptaráðuneytinu til dómsmálaráðuneytisins. Það er svona, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að þeir aðilar sem afhenda Fjármálaeftirlitinu viðkvæm trúnaðargögn, sem kann að vera að [á] hvíli „bankaleynd“ á grundvelli 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, geti áfram treyst því að um slík gögn gildi áfram þagnarskylda. Eðlilegra er að embætti sérstaks saksóknara afli slíkra gagna sjálft, a.m.k. á frumstigi mála og þegar mál berast embættinu með öðrum leiðum heldur en frá Fjármálaeftirlitinu.“

Hér er því, virðulegur forseti, alveg svart á hvítu frá viðskiptaráðuneytinu verið að segja að ef það kann að hvíla bankaleynd á málum þá verða fjármálafyrirtæki að geta áfram treyst því að um slík gögn gildi áfram þagnarskylda. Þá skal sko ekki sérstakur saksóknari með nokkrum hætti einhvern veginn koma sér inn í það mál, ef maður bara les þetta á mannamáli.

Það er því greinilega alveg rétt sem kom fram hér hjá hv. þm. Birni Bjarnasyni við fyrri umræðu þessa máls að viðskiptaráðuneytið undir forustu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar vildi ekki veita heimildir, vildi halda sig við þagnarskylduna og ekki veita sérstökum saksóknara þessar heimildir. Þá er það bara útkljáð mál og ágætt að það sé bara upplýst hér.

Núna ætlum við að sjálfsögðu að stíga þetta skref þannig að sérstakur saksóknari getur þá fengið þessar endurskoðunarskýrslur um bankana og getur þá farið að vinna í þessum málum og getur líka náð í fleiri gögn ef honum þykir þurfa að kíkja á þau. Það er því ágætt að þetta sé komið á hreint og vonandi getur þá sérstakur saksóknari farið að vinna af krafti í þessum málum og ná árangri í að komast að niðurstöðu varðandi það hvort hér hafi verið eitthvað saknæmt á ferli eða ekki, sem að sjálfsögðu margt bendir til (Forseti hringir.) eins og Eva Joly sérstakur ráðgjafi hefur ...

(Forseti (ÞBack): Forseti vill spyrja hv. þingmann hvort mikið sé eftir af ræðu hans.)

Nei, ég skal stytta mál mitt. Ég veit að það er að fara fram utandagskrárumræða hér núna. Ég vil bara að lokum, virðulegur forseti, segja að ég fagna því sem fram kom á blaðamannafundi í dag hjá hæstv. dómsmálaráðherra, að það eigi að fjölga starfsmönnum hjá sérstökum saksóknara. Það hefur verið nefnt að þar eigi líklega að vera 16 starfsmenn að störfum og ég fagna því sérstaklega. Við verðum að setja öflugar rannsóknir í gang og það verður ekki gert nema með miklum mannskap. Ég vil líka brýna hæstv. dómsmálaráðherra til að nýta sér Evu Joly í sínum störfum til að við fáum meira traust á því að verið sé að rannsaka mál hér með eðlilegum og kraftmiklum hætti.