136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

framganga samgönguáætlunar.

[16:09]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir að taka þetta mál til umræðu utan dagskrár á þinginu. Ljóst er að efnahagsvandinn í haust setti áætlanagerð um samgöngumál í nokkurt uppnám eins og aðrar áætlanir í fjárfestingum hjá hinu opinbera. Engu að síður hefur verið unnið eftir þeirri áætlun sem fyrir liggur, sérstaklega hvað varðar undirbúning, hönnun og skipulagsmál. Mikilvægt er að vekja sérstaklega athygli á þessum þáttum þar sem undirbúningsvinna undir verk getur tekið allt að tvö, þrjú ár, en ekki er fyrirsjáanlegt hvaða verk komast á dagskrá hvort sem við tölum um þessi ár eða næstu ár.

Ljóst er að þegar slíkur vandi blasir við í efnahagsmálum þarf að endurmeta hlutina. Meginsjónarmið varðandi samgönguframkvæmdir er vitanlega að láta ekki deigan síga. Stjórnvöld verða að leggja sitt af mörkum til að halda uppi atvinnu og þess vegna ríkir það sjónarmið hvað varðar samgönguframkvæmdir m.a. að leggja áherslu á mannaflsfrekar framkvæmdir. Engu að síður varð að skera niður á vegáætlun um 6 milljarða kr. eins og kom fram hjá hv. þingmanni.

Við þurfum einnig að horfa mjög til forgangsröðunar. Segja má að bæði forgangsröðun og umfang framkvæmda ráði miklu um hvað verður fyrir valinu, á hvaða svæðum er þörfin brýnust og hvar gætu samgönguframkvæmdir létt undir með atvinnuástandi og efnahag í byggðum landsins. Mikilvægi samgönguframkvæmda er ótvírætt fyrir hina umfangsmiklu atvinnugrein sem verktaka- og byggingariðnaðurinn er. Þróun síðustu ára er sú að verktakar um land allt hafa í síauknum mæli boðið í verk hvar sem er á landinu sem sést best á því að um og yfir 20 tilboð bárust í tvö síðustu útboð Vegagerðarinnar, Vestfjarðaveg og Rangárvallaveg. Þá eru nokkur umfangsmikil brúarvinnuverkefni fram undan eins og t.d. ný brú yfir Hvítá, en útboð hennar hefur nú þegar verið auglýst.

Þess má geta, virðulegi forseti, að klukkan kortér yfir tvö í dag voru opnuð tilboð í göng undir Vopnafjarðarheiði og þar bárust 13 tilboð. Kostnaðaráætlun var 1.440 millj. kr., lægsta boð var 738 milljónir eða 51% af kostnaðaráætlun.

Heildarfjárveiting til framkvæmda í vegamálum á árinu liggur fyrir, rúmlega 21 milljarður til nýframkvæmda. Bróðurparturinn af því fé fer í framkvæmdir sem komnar voru í gang í fyrra, þ.e. verk sem eru í gangi vítt og breitt um allt landið. Til nýframkvæmda á árinu eru, eins og áður sagði, sirka 6 milljarðar til ráðstöfunar. Ekki hefur að öllu leyti verið ákveðið hvaða vegagerðarverkefni verður unnt að bjóða út í ár. Þróun verðlags getur haft töluverð áhrif á þau verk sem þegar eru í gangi og þar með á það rými sem verður til nýrra verkefna. Þá munu niðurstöðutölur úr útboðum ársins einnig hafa áhrif á það hvaða fjármagn verður til ráðstöfunar.

Við þetta er að bæta, virðulegi forseti, að við þau þrjú verk sem hafa verið boðin út og tilboð opnuð í núna eftir að útboðsheimild var gefin aftur eftir hrun, voru kostnaðaráætlanir 2,1 milljarður kr. Boðin voru rétt tæpur milljarður þannig að við sjáum að þarna hafa sparast um 1.100 millj. kr. en auðvitað er fyrirvari á því að ekki er kannski alltaf tekið lægsta boði.

Mörg stór verkefni eru í gangi eins og Bolungarvíkurgöng og Héðinsfjarðargöng sem vissulega taka mikla peninga og þær framkvæmdir halda áfram. Nýjustu áætlanir gera ráð fyrir að báðum þessum verkum ljúki um mitt sumar 2010. Eins og komið hefur fram er undirbúningi vegna Norðfjarðarganga og Dýrafjarðarganga svo gott sem alveg lokið og aðeins spurning hvenær hægt verður að bjóða út þau verk, en sem dæmi eru Norðfjarðargöng um 8 milljarða kr. verk.

Hér var líka getið um Vaðlaheiðargöng en hafa verður í huga að þau eru hugsuð öðruvísi, að hluta til eru þau einkaframkvæmd og eru má segja spennandi viðræður í gangi um hvort tekst að fjármagna þau göng á annan hátt en gert hefur verið ráð fyrir hingað til.

Virðulegi forseti. Vegaframkvæmdir eru yfirleitt með arðbærustu verkefnum í nútímaþjóðfélagi. Samgöngubætur eru til þess fallnar að stytta leiðir, auka öryggi og stuðla að sameiningu byggðar. Þetta er enn mikilvægara þegar efnahagur þrengist og leggur okkur þær skyldur á herðar að vanda valið við röðun framkvæmda.

Þá vil ég geta þess, virðulegi forseti, að í burðarliðnum er samningur milli Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar um mörg verkefni sem verða þá sameiginleg verkefni Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar, verkefni sem eru hugsuð til þess að auka umferðarflæði og afar spennandi verkefni eins og að búa til nýjar akreinar fyrir strætisvagna til þess að stuðla að greiðari umferð, en við getum kannski komið betur að því í seinna svari mínu.