136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

framganga samgönguáætlunar.

[16:23]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum framkvæmd samgönguáætlunar og auðvitað sýnist þeim þingmönnum sem hér hafa komið upp sitt hverjum. Eins og komið hefur fram í umræðunni þurfti að skera töluvert niður frá fjárlögum, um 6 milljarða kr. Engu að síður eru þeir fjármunir sem ætlaðir eru til vegagerðar núna mjög miklir. Ef ég man rétt telst þetta annað mesta framkvæmdaár Íslandssögunnar í samgöngumálum þannig að því sé til haga haldið.

Eftir kosningar tekur við ný ríkisstjórn sem markar nýja stefnu og setur fram nýja samgönguáætlun. Ég held að við verðum að horfast í augu við þá grafalvarlegu stöðu sem blasir við í efnahagsmálum á fjárlögum núna og því að koma saman fjárlögum fyrir næsta ár. Ég held að þar sé óhjákvæmilegt að líta til þess að ekki verði eins miklir fjármunir settir í samgöngur og verið hefur. Þá skiptir afar miklu máli að forgangsröðunin sé rétt. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram varðandi mannaflsfrekar framkvæmdir og ég vil líka að það komi skýrt fram sem mín afstaða að menn eigi að líta til höfuðborgarsvæðisins á næsta ári, ekki síst vegna þess að hér er atvinnuleysið hið mesta.

Ég skoðaði atvinnuleysistölur í dag. Kreppan skellur á af mestum þunga á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Að sjálfsögðu eigum við að nota þá fjármuni á næstu árum sem við setjum í samgöngur til samgöngumannvirkja, vegagerðar, umferðaröryggismála og almenningssamgangna þar sem fjármunirnir nýtast best. Og það er hér á þessu svæði.