136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

framganga samgönguáætlunar.

[16:25]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Hæstv. forseti. Hæstv. samgönguráðherra hefur verið duglegur bæði fyrir síðustu sem og komandi kosningar að lofa umfangsmikilli jarðgangagerð í Norðausturkjördæmi, enda ljóst að hæstv. samgönguráðherra er í nánu og góðu sambandi við hv. þm. Kristján Möller sem er eftir allt saman kosinn af íbúum Norðausturkjördæmis til að gæta hagsmuna þeirra.

Hæstv. samgönguráðherra hefur einmitt verið þekktur fyrir að þurfa ekki neina aðstoð við að útdeila fjármunum ríkisins, a.m.k. ekki í kjördæmi sínu. Því verð ég að viðurkenna að önnur augabrúnin lyftist þegar ég las grein um hvernig staðið var að framgöngu samgöngumála fyrir Vestmannaeyjar. Þar heldur aðstoðarmaður samgönguráðherra því fram að hann hafi nánast einn síns liðs náð að knýja fram Landeyjahöfn, nánast þvert á vilja ráðherra, í kjölfar áherslu og eindreginna ráðlegginga aðstoðarmannsins til ráðherra. Ráðherrann skipaði einnig starfshóp um Landeyjahöfn samkvæmt fyrirmælum aðstoðarmannsins. Svo segir í greininni, með leyfi forseta:

„Eftir rúmt ár verður ný höfn tilbúin og siglingar hefjast. Verkin tala.“

Aðstoðarmaðurinn heldur svo áfram.

„Landeyjahöfn og útboð og smíði nýs Herjólfs hefur verið mitt meginverkefni fyrir Eyjarnar en ég hef engu að síður komið að fjöldanum öllum af verkefnum sem tengjast Vestmannaeyjum, stórum og smáum …

Hér tæpi ég á nokkrum verkum sem ég hef komið að persónulega og gleymi eflaust einhverju. Þetta eru verk sem unnin eru í hljóði og af ánægju …“

Mesta furða er að aðstoðarmaðurinn hafi nokkurn áhuga á að setjast á þing þar sem hann hefur getað gert meira en margur þingmaðurinn á þeim stutta tíma sem hann hefur verið aðstoðarmaður samgönguráðherra. Spurningin er bara: Hvað var samgönguráðherra að gera á þessum sama tíma?