136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[16:59]
Horfa

Björn Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör og það var gagnlegt að fá þessar upplýsingar gefnar í þingsalnum.

Ég vakti máls á því í gær og ég vil gjarnan fá tækifæri til þess að spyrja hæstv. ráðherra að því nú: Kemur ekki til álita fyrir utan að nýta þau tengsl sem hinn franski saksóknari getur skapað, að líta einnig á tengsl Íslands inn í alþjóðlegt rannsóknarsamfélag í gegnum Europol og nýta þetta tækifæri, ef ég má orða það svo, eða þessar aðstæður til þess að tryggja örugglega að Íslendingur starfi hjá Europol og komi þá meira að efnahagsrannsóknum nú meðan þetta gengur yfir á þennan veg?

Eins og ég sagði í ræðu minni í gær er út af fyrir sig gott að fá ráðgjöf frá sérfræðingum eins og hér hefur verið lýst en ég tel ákaflega miklu skipta að það sé tryggt að hinn sérstaki saksóknari hafi aðgang inn í viðurkennt rannsóknarumhverfi. Eitt er Interpol en Europol skiptir mjög miklu máli því að Europol er örugglega að þróa mjög með sér rannsóknir á sviði efnahagsbrota og peningaþvættis og annarra slíkra þátta. Ég hvet þess vegna eindregið til að ekki verði einblínt, ef ég má orða það svo, á hin sérstöku tengsl við hinn franska saksóknara heldur verði einnig lögð rækt við að nýta þau tengsl sem eru við Europol og við þær alþjóðlegu lögreglustofnanir sem við höfum því þær eru viðurkenndar og þarf enga sérstaka vottun, ef svo má segja, fyrir lögmæti þeirra eða aðgangi þeirra að upplýsingum.

Ég hvet ráðherrann til að huga að þessu þegar verið er að endurskipuleggja og fara yfir nýtt tengslanet fyrir hinn sérstaka saksóknara.