136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[17:03]
Horfa

Björn Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka ráðherranum fyrir þessar jákvæðu undirtektir. Ég tel að skoða eigi þetta allt saman og huga að Interpol, sem hlýtur að fjalla um svona mál, og ekki síður að velta fyrir sér t.d. Eurojust, sem er samstarf saksóknara á evrópskum grundvelli og Ísland er aðili að í gegnum Schengen-samstarfið, og nýta þannig öll tækifæri. Mjög mikilvægt er, held ég, að nýta þau tækifæri sem felast í aðild okkar að alþjóðlega viðurkenndum rannsóknarstofnunum, því í málum eins og þessum er trúverðugleikinn og traustið og spurningar sem koma frá evrópskum stofnunum, t.d. gagnvart Lúxemborg eða öðrum Evrópulöndum — ef það kemur í gegnum þessar stofnanir, þótt íslenskir aðilar geti haft mikla vigt, hefur það ekki síður mikla vigt að geta beitt sér í gegnum sameiginlegar evrópskar stofnanir sem allir vita eftir hvaða reglum starfa og hvaða reglur gilda um.

Ég hvet því eindregið til þess þegar farið verður í þetta starf, sem hæstv. ráðherra lýsir og fjallað er um þessa dagana, að menn hugi að þeim þáttum. Við vitum um nána samvinnu okkar við Norðurlöndin, en ég hvet til þess að menn hugi að þessum Evrópuþáttum og tengi rannsóknirnar inn í þær stofnanir eftir því sem efni og ástæður leyfa og nýti þá krafta sem þar eru til að auðvelda okkur að koma að þessum málum.