136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

náttúruvernd.

362. mál
[17:25]
Horfa

Frsm. umhvn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, með síðari breytingum.

Virðulegi forseti. Það er eins með þetta mál og það mál sem rætt var hér á undan að um það er alger sátt í umhverfisnefnd. Allir hv. þingmenn umhverfisnefndar rita undir álitið án fyrirvara og um málið var fjallað ítarlega í nefndinni sem fékk til sín gest, Loga Kjartansson frá umhverfisráðuneytinu, sem og umsagnir frá fjölmörgum aðilum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Landmælingum Íslands, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Náttúrufræðistofnun Íslands, Félagi landfræðinga, Landvarðafélagi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Landvernd og Umhverfisstofnun.

Málið fékk talsverða umfjöllun en það snýst um að lögfesta gjaldtökuheimild fyrir námskeið fyrir landverði sem Umhverfisstofnun annast. Þá er í frumvarpinu lagt til að viðkomandi þurfi að hafa lokið námskeiði Umhverfisstofnunar um landvörslu til að mega starfa sem landvörður. Þó er stofnuninni veitt heimild til að veita öðrum réttindin hafi þeir öðlast menntun sem samsvarar efnisþáttum þessa umrædda námskeiðs.

Stöðugildum landvarða hefur fjölgað talsvert frá árinu 2008 og samhliða því ásókn í námskeið Umhverfisstofnunar um landvörslu. Stofnunin hefur innheimt námskeiðsgjald án þess að til þess væri ótvíræð lagaheimild. Tekjur af gjaldinu hafa þó ekki staðið undir kostnaði. Nefndin telur því rétt að lögfest sé gjaldtökuheimild, enda sé kveðið á um að gjaldið sé ekki hærra en nemi kostnaði við námskeiðið.

Þó telur nefndin að ekki eigi að gera það að skilyrði fyrir rétti til að starfa sem landvörður að viðkomandi hafi lokið námskeiðinu, enda sé óeðlilegt að Umhverfisstofnun sem haldi námskeið fyrir landverði setji jafnframt reglur um námskröfur þeirra. Um þetta var, virðulegi forseti, öll nefndin sammála.

Þá er til staðar reglugerð umhverfisráðherra sem kveður á um námskröfurnar og ekkert er því til fyrirstöðu að halda því fyrirkomulagi. Jafnframt er að mati umhverfisnefndar óeðlilegt að Umhverfisstofnun sé falið það hlutverk að meta menntun sem samsvarar efnisþáttum námskeiðsins án þess að stofnuninni séu settar skýrar reglur um slíkt mat. Samkvæmt frumvarpinu er ráðherra ekki lengur skylt að setja reglugerð um nánari ákvæði er varða nám og starfsskyldur þeirra sem starfa á náttúruverndarsvæðum, m.a. landvarða, heldur eingöngu heimilt, ekki skylt. Nefndin leggur því til að óbreytt fyrirkomulag verði haft á þessu þannig að umhverfisráðherra setji í reglugerð að fengnum tillögum stofnunarinnar nánari ákvæði um menntun og starfsskyldur þeirra sem starfa á náttúruverndarsvæðum. Þá verði felld brott skilyrði um að hafa lokið landvörslunámskeiði Umhverfisstofnunar til að öðlast rétt til að starfa sem landvörður. Auk þess leggur nefndin til að við bætist ný málsgrein sem kveði á um skyldu Umhverfisstofnunar til að halda námskeið í landvörslu í samræmi við reglugerð ráðherra. Ákvæðið veitir stofnuninni jafnframt heimild til gjaldtöku fyrir námskeiðið í samræmi við önnur ákvæði frumvarpsins.

Því leggjum við til að frumvarpið verði samþykkt með einni breytingu með leyfi forseta:

„1. gr. orðist svo:

Við 29. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Umhverfisstofnun skal halda námskeið í landvörslu í samræmi við reglugerð umhverfisráðherra, sbr. 2. mgr. Umhverfisstofnun er heimilt að taka gjald fyrir námskeið í landvörslu og próftöku sem þátttakendur greiða. Upphæð gjalds má ekki vera hærri en sá kostnaður sem hlýst af námskeiðshaldi og vinnu vegna próftöku. Ráðherra setur gjaldskrá að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar.“

Virðulegi forseti. Karl V. Matthíasson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir álitið rita hv. þm. Helgi Hjörvar, sú er hér stendur, Atli Gíslason, Eygló Harðardóttir, Kjartan Ólafsson, Árni M. Mathiesen, Jón Gunnarsson og Kristinn H. Gunnarsson.

Virðulegi forseti. Þetta mál fór sem sagt í gegnum nefndina í fullri sátt eins og málið hér á undan og nú undra ég mig á því sem mér finnst vera að gerast í þessum sal. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmenn hafi áðan gert einhvern ágreining um málið sem slíkt þegar kallað var eftir hæstv. umhverfisráðherra, að hún sæti undir þessari umræðu sem hefur farið mjög málefnalega fram í þingnefnd og skilað þeirri niðurstöðu að það er fullkomin samstaða í umhverfisnefnd um bæði þessi mál. Ég velti þess vegna fyrir mér hvað vaki fyrir hv. þingmönnum. Eru þeir að gera ágreining um þessi mál sem tekin voru út í fullkominni sátt eða hvað er það sem hv. þingmenn gera kröfu um að hæstv. ráðherra svari hér umfram það sem svarað hefur verið í nefndinni sem skilaði þessari sáttaniðurstöðu?

Ég velti fyrir mér, virðulegi forseti, hvort hér sé eina ferðina enn verið að setja af stað einhverja leiksýningu í aðdraganda kosninga.