136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

náttúruvernd.

362. mál
[17:52]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég stóðst ekki mátið fyrst hv. þm. Kjartan Ólafsson beindi orðum sínum til mín áðan. Í tilefni þess sem hann sagði síðast í þessum ræðustóli um nýtingu vil ég geta þess að verndun er ein tegund nýtingar og getur haft jafnmikið samfélagslegt, fjárhagslegt og efnahagslegt gildi og það sem felst í hefðbundnum skilningi á íslenska orðinu nýtingu.

Hér er svolítið rætt um Vatnajökulsþjóðgarð og þar sem málið er mér og núverandi hæstv. umhverfisráðherra nokkuð skylt vil ég geta þess að það var stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs sem réði sér framkvæmdastjóra. Garðurinn hefur ekki forstjóra eða neitt slíkt heldur hefur stjórn garðsins, yfirstjórn hans, framkvæmdastjóra og hann er staðsettur í Reykjavík, það er alveg rétt. En það er ekkert sem stendur í vegi fyrir því að því megi breyta. En þjóðgarðurinn er settur saman af fjórum svæðisráðum á fjórum svæðum og hæstráðandi á hverju svæði er þjóðgarðsvörður og hann ræður til sín landverðina sem nú er búið að auglýsa eftir og þegar starfsemi þjóðgarðsins verður komin á fulla fart þá verða tugir manna við störf úti í þjóðgarðinum. Ekki færri en 40 í sumar ef ég man þetta rétt og erum við þá ekki farin að telja öll afleiddu störfin og allt það sem fyrirtæki á borð við þjóðgarð færir með sér inn í byggðirnar sem í honum eru og öll þau atvinnutækifæri sem þjóðgarður á borð við Vatnajökulsþjóðgarð býr til úti á landsbyggðinni. Ég fer ekki ofan af því að Vatnajökulsþjóðgarður er eitt besta og stærsta atvinnusköpunarverkefni sem stjórnvöld hafa farið í og það er sjálfbært atvinnusköpunarverkefni.