136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

náttúruvernd.

362. mál
[17:54]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir þetta andsvar. Hún fór yfir stofnun, framkvæmdastjórn og stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs og þessar fjórar starfsstöðvar. Það hafði ég reyndar gert í máli mínu. Það kom fram hjá hv. þingmanni að verndun gæti verið nýting. Að sjálfsögðu getur það verið nýting og er nýting, það er engin spurning, og það getur líka verið „omvendt“. Þetta styður hvað annað og við þurfum að ná samstöðu á hinu háa Alþingi meðal þjóðarinnar.

Þannig háttar til að undangengin ár hefur verið gríðarleg þensla á vinnumarkaði. Við höfum verið að flytja inn hátt í 20 þús. manns, einkum og sér í lagi frá Póllandi, til að vinna störf í byggingariðnaði og öðrum atvinnugreinum. Nú bregður svo við að þessir ágætu vinir okkar sem hafa sótt landið heim eru að mestu leyti farnir og hér eru þúsundir Íslendinga atvinnulausar. Á þeim tímapunkti fer fólk að ræða hvernig nýta megi auðlindir. Við erum að fara í hvalveiðar, við erum að fá gjaldeyri, við erum að skapa störf. Við öflum auðvitað gjaldeyris og sköpum störf með því að fá ferðamenn til landsins, það er ekki nokkur spurning, þannig að það er mjög jákvætt. Við eigum að horfa á þetta jákvætt í heild sinni vegna þess að nýtingar- og verndarsjónarmið eiga vel að geta farið saman. Það má ekki blokkera sig upp við vegg og segja að þetta séu andstæður, alls ekki. Hv. þingmaður talaði um að verndun geti verið nýting og það er fyrst og fremst fyrir ferðaþjónustuna sem skapar okkur mikinn gjaldeyri, við þurfum að vernda þá starfsemi hvort heldur eru hótel, skemmtistaðir eða áningarstaðir úti á landsbyggðinni.