136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna færslu eftirlits með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

420. mál
[18:28]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp sem gerir ráð fyrir að færa rafmagnsöryggissvið Neytendastofu til Brunamálastofnunar og þar með yfirstjórn málaflokksins frá viðskiptaráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Það er umhverfisnefnd sem flytur þetta mál og verður að segjast eins og er að þetta er mikill bandormur sem umhverfisnefnd leggur til en í greinargerð með frumvarpinu, sem ég reikna með að hafi verið samið í umhverfisráðuneytinu en að nefndin flytji málið til að flýta því, segir að það sé mat ráðuneytanna, umhverfisráðuneytis og viðskiptaráðuneytis, að málaflokkurinn falli mun betur að þeim verkefnum sem tilheyra Brunamálastofnun en Neytendastofu þar sem rafmagnsöryggi bygginga tengist brunavörnum.

Er á hinn bóginn lagt til að Neytendastofa sinni áfram því hlutverki sem snýr að markaðseftirliti með rafföngum sem ekki eru varanlega tengd mannvirkjum. Þá vil ég vekja athygli á umsögn Samorku sem segir m.a. í umsögn sinni, með leyfi hæstv. forseta, í 3. gr. frumvarpsins, lið a:

„Neytendastofa framkvæmir markaðseftirlit með rafföngum sem ekki eru varanlega tengd mannvirkjum. Við bendum á að hugtakið „varanlega tengd mannvirkjum“ er ekki afdráttarlaust hugtak og býður upp á ágreining. Það eru ýmis tæki, þar á meðal heimilistæki, sem bjóða upp á val um fasttengingu eða lausa tengingu við raflögn húsa. Við þær aðstæður gæti eftirlit fallið undir báðar eða hvoruga stofnunina.“

Þetta er atriði sem hafa verður í huga og Samorka vekur athygli á því. Síðan segir þar áfram:

„Vegna þess skamma tíma sem gefinn er til athugasemda við frumvarpið gerum við ekki tillögu um orðalagsbreytingu varðandi hugtakið „varanlega tengd mannvirkjum“ í 3. gr. en vænti þess að þegar frumvarpið um Byggingarstofnun verður lagt fram gefist tækifæri til að endurmeta 3. gr. þessara laga.

Samtök atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði gera athugasemd og segja í umsögn sinni að þeir hafi mælt með því að málaflokkurinn verði fluttur til Byggingarstofnunar. Þá verða væntanlega draumar margra að veruleika. Þeir segja jafnframt, hæstv. forseti:

„Við mælum jafnframt nú með fyrirhuguðum flutningi málaflokksins til Brunamálastofnunar hvort heldur sem það verður til framtíðar eða sem millilending á leiðinni í Byggingarstofnun. Staða rafmagnsöryggissviðsins innan Neytendastofu er að okkar mati óviðunandi.

Afstaða samtakanna til þeirra hugmynda að skipta upp raffangaeftirliti milli stofnananna hefur jafnframt komið skýrt fram í öllum okkar erindum til stjórnvalda en þar mælum við eindregið gegn þeim hugmyndum og teljum að raffangaeftirlitið í heild sinni eigi að fylgja málaflokknum, í þessu tilfelli til Brunamálastofnunar.

Við teljum hins vegar meiri hagsmuni fólgna í því að frumvarpið nái fram að ganga á þessu þingi …“

Þeir leggjast ekki gegn þessu af þeim orsökum að þeir telja betra að þessi skref séu stigin en benda jafnframt á að raffangaeftirlitið í heild sinni ætti að vera undir sömu stofnun.

Ég vildi í tilefni af þessu frumvarpi skýra sjónarmið sem ég hef áður haldið á lofti en það varðar svokallaða rafmengun. Það er ástæða þess að ég bað um að hæstv. umhverfisráðherra væri við þessa umræðu, ég bendi henni eindregið á að huga að þeim málum.

Rafmengun er nokkuð algengt vandamál víða um land. Leiddar hafa verið líkur að því að rafmengun eigi þátt í ýmsum heilsufarslegum vandamálum fólks en mikil þörf er á rannsóknum á áhrifum rafmengunar á mannslíkamann. Tíðni krabbameins og hvítblæðis auk margra óvenjulegra sjúkdóma hefur hækkað og leiddar hafa verið líkur að því að rafmengun eigi mikinn þátt í því. Þetta þarf að rannsaka og Ísland er mjög ákjósanlegur vettvangur til slíkra rannsókna fyrir margra hluta sakir. Á þetta bendi ég núna, hæstv. forseti og hæstv. ráðherra, í tilefni af því að ríkisstofnanir þær sem haft hafa eftirlit með þessum málum hafa ekki sinnt þessu. Þær hafa ekki sinnt því að skoða hvernig frágangi á rafmagnsmálum hefur verið háttað og þess vegna er það von mín að þegar þessi mál flytjast yfir til Brunamálastofnunar verði gerð bót á þessu. Ég tel þetta mjög alvarlegt mál og ítreka að það er ástæða þess að ég bað hæstv. ráðherra að vera við umræðuna.

Í vestrænum samfélögum nútímans söfnum við í kringum okkur tækjum og tólum sem nota sífellt meiri raforku. Þessari tæknivæðingu heimila og fyrirtækja fylgir rafmengun og útgeislun rafsegulbylgna frá raflagnakerfum mannvirkja. Miklu skiptir því að frágangur rafkerfa sé með þeim hætti að sem minnst rafmengun verði eftir í umhverfi okkar. Rafmengun sést ekki með berum augum en auðvelt er að mæla hana með réttum mælitækjum. Fólk lætur þó ekki mæla hjá sér rafmengun alveg upp úr þurru, það er helst ef ljósaperur eru farnar að springa í óeðlilega miklum mæli, ef raftæki ganga ekki eðlilega eða ef tölvur frjósa eða hvað svo sem kemur upp á í því samhengi — þegar allt þetta er farið að valda pirringi er kannski farið að skoða málin í einhverri alvöru. Þarna hefur komið í ljós að það eru jarðtengingar sem skipta þarna miklu máli og ekki hefur verið fylgst nægilega vel með því.

Veikindi sem ekki verða útskýrð með öðrum hætti en með rafóþoli verða stundum til þess að fólk kallar á sérfræðinga til að mæla hjá sér rafmengun en líkur hafa verið leiddar að ákveðnu sambandi rafmengunar og tiltekinna heilsufarslegra vandamála einstaklinga. Það eru fjöldamargar sögur þekktar þar sem krankleiki manna hefur skánað til muna við að komist hefur verið fyrir rafmengun á heimilum þeirra.

Vandamálin eru oftast tengd rafskautum mannvirkja og hvernig frá þeim er gengið. Í eldra húsnæði hafa jarðskaut stundum verið aftengd þegar skipt er um lagnakerfi í húsum en í nýrri húsum er oft ekki gengið rétt frá þessum hlutum í upphafi.

Þá vil ég nefna skýrslu Orkulausna um spennujöfnun og jarðbindingu mannvirkja eftir Hall Karlsson og Svanbjörn Einarsson en þar er bent á ýmislegt í reglugerðarumhverfi okkar sem betur má fara. Þar er einnig bent á að túlkun á reglugerðum er mismunandi á milli orkufyrirtækja og jafnframt er hönnun rafkerfa húsa og mannvirkja oft ábótavant í meira lagi ef fylgja á reglugerðum sem í gildi eru.

Þær aðferðir sem Brynjólfur Snorrason hefur þróað hafa dugað mjög vel til að uppræta og fyrirbyggja rafmengun. Hann hefur stundað rannsóknir á fyrirbærinu í fjölda ára og tekist að þróa lausnir til að draga úr rafsegulsviði og yfirtíðni í byggingum ásamt því að minnka leiðni hita í búnaði rafmagnstaflna.

Í skýrslu Orkulausna sem áður var getið er gerð grein fyrir nokkrum verkefnum þar sem aðgerðir Brynjólfs hafa orðið til að gera húsnæði nothæft hvað varðar tölvubúnað og fleiri tæki og einnig í landbúnaði þar sem t.d. í kjúklingabúum hefur verið ráðist gegn kampýlóbakter, júgurbólgu í kúm og sauðfé og fleira en þetta hefur oft einu nafni verið nefnt húsasótt. Húsasótt er sótt sem þarf að rannsaka hvort sem okkur líkar betur eða verr, en því hefur ekki verið sinnt.

Fyrrv. hæstv. viðskiptaráðherra lofaði mér í svari sínu til mín að ganga í þetta mál. Ég hef reyndar ekki séð efndir á því en þori þó ekki að fullyrða að það hafi ekki orðið. Þegar menn vilja laga þessa hluti hafa ekki allir aðgang að Brynjólfi Snorrasyni og þeim félögum í Orkulausnum. Það er því spurning um hvernig neytendavernd er háttað þegar um svo tæknilegt mál er að ræða og í raun ósýnilegt svið fyrir almenning. Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga — ef hæstv. umhverfisráðherra vill hlýða á mál mitt — að almenningur er mjög berskjaldaður vegna ósýnileika vandamálsins. Það sem ég er með í huga eru hagsmunir almennings. Það er ekki hægt að sjá þetta með berum augum. Það er eingöngu þegar fólk fer að finna þetta á sér að brugðist er við og þarf því fagaðila til að geta unnið úr þessum málum. Í grunninn er það mjög jákvætt að verkefni séu nú komin yfir til Brunamálastofnunar. Ég held að þeim verði vel fyrir komið þar og yfirstjórnin, sem nú færist frá viðskiptaráðuneyti og yfir til umhverfisráðuneytisins, henti mun betur. Ég vonast þess vegna til að hæstv. umhverfisráðherra veiti þessu máli athygli og beiti sér fyrir aðgerðum hvað þetta varðar.

Öryggi og vönduð vinnubrögð við frágang rafmagns eru mjög brýn, bæði út frá áðurnefndri hættu á mengun en ekki síður vegna eldhættu vegna rafmagnsins. Ég legg áherslu á að rafmengun er þáttur sem ekki má gleymast þegar þessu eftirliti er sinnt af Brunamálastofnun, bæði rafmengun og eldhætta, og þarna er ekki síður um öryggismál að ræða. Þetta er tæknilegt atriði, eins og ég hef sagt. Allt ferlið þarf að vera sem skýrast og einfaldast gagnvart einstaklingum og sá aðili sem fer með eftirlitsskylduna gætir þess að halda fólki upplýstu um hættuna á rafmengun. Það að menn taki þetta til alvarlegrar athugunar og þetta verði kennt í skólum — ef hæstv. ráðherra vildi hlýða á það líka (Umhvrh.: Ég er að hlýða á hv. þingmann.) þegar þessi mál eru til athugunar verður auðvitað að koma þeim inn í menntakerfið þannig að þeir aðilar sem sinna þessu, rafvirkjar, tæknifræðingar og þeir sem sinna því að hanna rafkerfi, átti sig á þeirri hættu sem þarna er til staðar. Það er atriði sem verður auðvitað líka að hafa í huga, að upplýsa almenning og að tryggja að það fari inn sem kennsluefni til þeirra sem ganga frá þessum kerfum. Ég treysti því að hæstv. ráðherra taki þetta alvarlega og sinni þessu máli, þ.e. rafmengun.