136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna færslu eftirlits með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

420. mál
[18:43]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Ég fer í seinni ræðu mína um frumvarpið sem við ræðum hér núna. Þar sem hæstv. umhverfisráðherra var ekki til staðar þegar ég talaði fyrst langar mig fyrst og fremst að koma tveimur spurningum að, sem ég get kannski formað sem eina.

Hyggst hæstv. umhverfisráðherra leggja fram frumvörp um skipulagslög og mannvirkjalög, sem tengjast því frumvarpi sem við erum að samþykkja hér, á þessu þingi eða munu þau liggja áfram? Eins og ég gat um í fyrri ræðu minni voru þessi mál í raun sett í vinnslu árið 2002. Nú vil ég rétt heyra hvernig haldið er að þau þróist á þessu þingi.