136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[20:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í Sovétríkjunum til forna var töluvert mikið um ríkisbúskap, fimm ára áætlanir og annað slíkt, þar sem menn niðurgreiddu og framkvæmdu gjörsamlega án tillits til kostnaðar.

Ég sakna þess í máli hv. frummælanda að heyra hvaða skekkju menn eru í rauninni að gera á markaðskerfinu með því að niðurgreiða húshitunarkostnað. Hverjar eru afleiðingarnar? Afleiðingarnar eru þær að með því að niðurgreiða húshitunarkostnað úti á landi þurfa menn að styrkja framkvæmdir sem eru í eðli sínu eðlilegar, náttúrulegar og skynsamlegar, eins og hitaveituframkvæmdir, jarðvarmadælur og annað slíkt. Menn byrja á því að skekkja kerfið og koma svo með aðrar ráðstafanir til þess að laga það. Ekki er orð um þetta hjá hv. þingmanni né í greinargerð með frumvarpinu.

Ég hefði viljað sjá að menn skoðuðu aðrar leiðir, eins og t.d. þær að borga búsetustyrki á viðkomandi stað. Þá ráða menn hvort þeir vilja setja dýran pening í rafmagnshitun eða ódýrari pening í hitaveitu, sem þá borgar sig því hún keppir þá á réttum grundvelli við markaðsverð á rafmagni. Niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði eru ekkert annað en skekking á markaðsbúskapnum og þess vegna spyr ég hv. þingmann hvort það hafi yfirleitt ekki verið rætt í nefndinni að skoða aðrar leiðir, eins og búsetustyrki á svona svæðum í stað þess að vera annars vegar að niðurgreiða og skekkja markaðinn og hins vegar að styrkja eðlilegar framkvæmdir í samkeppni við niðurgreiðsluna.