136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[20:42]
Horfa

Frsm. iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti því upp hvort þetta sé orðin stefna Sjálfstæðisflokksins í þessum málum vegna þess að undir nefndarálitið rita líka fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í hv. iðnaðarnefnd, (Gripið fram í.) reyndar með fyrirvara sem þau munu gera grein fyrir á eftir.

Eins og ég sagði, bæði í máli mínu og fyrra andsvari, miðar frumvarpið að því að gera ákveðnar breytingar á þessum niðurgreiðslum og hvernig þeir fjármunir eru nýttir sem í þetta fara. Því er ætlað að draga úr húshitunarkostnaði íbúa á köldum svæðum, þetta er til þess gert og leiðangurinn farinn, og draga þannig úr kostnaði ríkissjóðs til lengri tíma litið.

Hingað til hefur 1% af því fé sem veitt er á fjárlögum til niðurgreiðslna á kostnaði við húshitun, farið til orkusparnaðaraðgerða en hér er verið að leggja til 3%. Meira fé verður því nýtt til þess.

Ég tel, virðulegi forseti, að hér sé verið að stíga mjög heillavænlegt skref til breytinga hvað varðar niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði. Hér er líka verið að ganga ákveðinn atvinnuskapandi veg vegna þess að beinlínis er verið að hvetja til nýsköpunar í húshitun á þeim svæðum sem flokkast undir að vera svokölluð köld svæði. Ég held að hv. þingmaður ætti að fagna þessu eins og hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem í nefndinni eru og fjölluðu um þetta mál, gerðu.