136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[20:45]
Horfa

Herdís Þórðardóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, með síðari breytingum. Í fyrsta lagi er verið að afla heimilda til að veita styrki til að taka í notkun varmadælur og aðra umhverfisvæna tækni sem nota má til húshitunar á svæðum sem því miður búa ekki við hitaveitu og eru á svokölluðum köldum svæðum.

Í öðru lagi er verið að afla heimilda til að veita styrki til endurbóta á íbúðarhúsnæði og almennt til orkusparandi aðgerða. Á undanförnum árum hafa stjórnvöld greitt út þúsund milljónir króna vegna styrkja til nýrra hitaveitna en alls hafa um 2.000 íbúðir farið af rafhitun og yfir á hitaveitu. Sem dæmi um stór verkefni sem styrkt hafa verið á grundvelli ákvæða laga nr. 78/2002 eru Hitaveita Stykkishólms, Hitaveita Dalabyggðar og Hitaveita Eskifjarðar. Þá hafa mörg minni verkefni einnig hlotið styrki.

Þótt enn séu einhver smærri og minni verkefni í farvatninu verður að teljast ólíklegt að unnt verði að koma upp hitaveitum á köldum svæðum þar sem strjálbýlt er og kostnaðarsamt að finna jarðhita og dreifa til notenda. Því er talið rétt að skoða aðrar leiðir til að draga úr húshitunarkostnaði og styrkveitingum tengdum slíkum verkefnum. Styrkveitingar byggðar á sama grunni og styrkir til nýrra hitaveitna munu til lengri tíma litið geta dregið úr kostnaði ríkissjóðs vegna niðurgreiðslna og lækkað verulega orkukostnað þeirra sem búa ekki við hitaveitu. Í dag eru 9% heimila í landinu raforkukynt en áætlað er að heimili í landinu séu um 100.000.

Á þessu ári er heildarfjárveiting til þessara verka á fjárlögum 1.177 millj. kr. Eins og lög kveða á um er gert ráð fyrir að um 950 millj. kr. renni til að greiða niður rafmagn og rafhitun. Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að í fyrsta lagi verði heimilt að verja 3% af fjárlagaliðnum til orkusparnaðar í stað 1% eins og nú er. Það felur í sér að 35 millj. kr. yrðu til ráðstöfunar í staðinn fyrir 12 millj. kr. ef lögin stæðu óbreytt.

Á árinu 2005 vann Ragnar K. Ásmundsson hjá Íslenskum orkurannsóknum skýrslu fyrir Orkustofnun um hagkvæmni þess að setja upp varmadælur á Íslandi. Í skýrslunni er tekið saman yfirlit yfir notkun varmadælna til húshitunar hérlendis, virkni varmadælna og helstu útfærslum og niðurstöðum hagkvæmnismats lýst miðað við þágildandi raforkuverð. Í skýrslunni kemur fram að hár stofnkostnaður og lágt raforkuverð vegna niðurgreiðslu til húshitunar séu tvær meginástæður þess hversu lítið varmadælur eru notaðar á Íslandi.

Þessi nýjung, sem er vonandi að ryðja sér til rúms hér á landi, felst í því að nýta varmadælur til að breyta varma úr t.d. lofti, sjó og vatni í rafmagn og ég sé ekki annað en að það sé af hinu góða fyrir neytendur.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lagt verði til að heimilt verði gegn mótframlagi frá húseigendum að nýta hluta þeirra fjármuna sem í dag eru notaðir til niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar í að styrkja húseigendur á köldum svæðum til endurbóta á húsnæði þegar um óeðlilega mikla orkunotkun er að ræða, og ekki veitir af.

Gert er ráð fyrir að með þessu frumvarpi skapist um 50–100 störf, ef vitnað er til orða hæstv. iðnaðarráðherra við 1. umr. um frumvarpið hér í þinginu fyrir nokkrum dögum. Þá er gert ráð fyrir því að þetta muni skapa iðnaðarmönnum vinnu og sé atvinnuskapandi og okkur veitir ekki af í dag að styðja við bakið á því, eins og málum er nú komið hjá okkur.

Í fylgiskjali frá fjármálaráðuneytinu með frumvarpinu segir:

Markmiðið með frumvarpinu er í fyrsta lagi að draga úr húshitunarkostnaði íbúa á köldum svæðum, draga úr kostnaði ríkissjóðs til lengri tíma litið við að niðurgreiða húshitunarkostnað og hvetja til atvinnuskapandi verkefna, eins og ég kom að rétt áðan. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem gera ráð fyrir að afnema takmörkun á hámarki niðurgreiðslna vegna raforkunotkunar á varmadælur til húshitunarkostnaðar, gera mögulegt að styrkja breytta orkuöflun til húshitunar og styrkja endurbætur á íbúðarhúsnæði á köldum svæðum Lagt er til að 3% af því fé sem ákveðið er í fjárlögum til niðurgreiðslu á kostnaði við húshitun og styrktar nýjum hitaveitum verði notuð til að mæta kostnaði vegna þessa, eins og formaður nefndarinnar gat um áðan.

Hæstv. forseti. Við minni hlutinn í iðnaðarnefnd erum með athugasemdir við þetta og teljum tækifæri á landvinningum á sviði hitaveitna hér á landi vera hverfandi. Næstu skref til orkusparnaðar og betri og bættari orkunýtingar ættu að felast í að horft sé til þeirra 9% heimila í landinu sem eru kynt með raforku. Minni hlutinn telur að nýjar leiðir felist m.a. í endurbótum á húsnæði og með nýrri tækni, svo sem á sviði varmafræði, eins og ég sagði áðan. Þá telur minni hlutinn mörgum spurningum ósvarað, t.d. um hver sé þörfin, hvað muni sparast, hvernig eigi að forgangsraða þessum verkefnum, hver árangurinn verði og hvenær verkefninu ljúki. Jafnframt vill minni hlutinn benda á að ef ekki kemur til hækkunar á þeim liði fjárlaga sem vísað er til muni þessi breyting væntanlega valda hækkun á húshitunarkostnaði hjá notendum með niðurgreiðslur. Minna fé verður þá eftir til beinna niðurgreiðslna þrátt fyrir að ekki sé gert ráð fyrir að sú verði niðurstaðan á árinu 2009.

Frú forseti. Þetta er mikilvægt mál sem við sjálfstæðismenn styðjum í hv. iðnaðarnefnd. Ef ég kem aðeins inn á nefndarálitið sem formaður nefndarinnar, hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, kom inn á áðan er gert ráð fyrir að verði hlutfall þetta hækkað muni framlögum til verkefna innan fjárlagaliða 11-373 Niðurgreiðslur á húshitunum verða forgangsraðað á þann veg að minna fé fari í stofnstyrki til nýrra hitaveitna og jarðhitaleitar auk þess sem verkefni um hagkvæmniúttekt á varmadælum og smávirkjunum er lokið.

Hæstv. forseti. Hér kom þingmaður okkar, Pétur H. Blöndal, upp og talaði um búsetustyrki. Ég spyr jafnframt: Hvort er ódýrara fyrir íslenska ríkið að vera með búsetustyrki eða niðurgreiða rafmagn á þessum köldu svæðum þar sem fólk býr við hátt raforkuverð og er ekki á samkeppnisgrundvelli eins og við sem búum á þessum heitu svæðum á Suðurlandi, en köldu svæðin eru aðallega Vestfirðir og Austfirðir?

Enn og aftur vil ég geta þess að við sjálfstæðismenn í iðnaðarnefnd teljum þetta ágætismál en erum samt með fyrirvara. Spurningar hafa vaknað hjá okkur í umræðu um málið. Hver er sparnaðurinn? Við skrifum undir álitið með fyrirvara sem við munum gera betur grein fyrir. Við styðjum þetta mál, hæstv. forseti.