136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[20:56]
Horfa

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp um breytingar á lögum um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar. Með frumvarpi þessu er ætlunin að draga úr húshitunarkostnaði íbúa á köldum svæðum sem ekki njóta hitaveitna. Það er einnig ætlunin að draga úr kostnaði ríkissjóðs til langs tíma litið varðandi niðurgreiðslu til húshitunar og einnig til að stuðla að fjölgun starfa meðal iðnaðarmanna.

Hér er verið að gera m.a. þær breytingar að mögulegt verði að styrkja breytta orkuöflun til húshitunar, m.a. með varmadælum. Það getur verið öflugur kostur til upphitunar húsnæðis á þeim stöðum þar sem ekki er hitaveita því varmadælur leiða til betri orkunýtingar.

Varmadælur eru mismunandi að gerð og spara mismikla orku. Hámark niðurgreiðslna vegna notkunar raforku á varmadælur felur ekki í sér neina hvatningu þar sem ekki svarar kostnaði fyrir íbúðareiganda að setja upp slíkan búnað.

Tækifærin í nýjum hitaveitum á köldum svæðum eru hverfandi og því er hér verið að fara nýjar leiðir og veita stofnstyrki til íbúðareigenda sem hyggjast nýta sér varmadælur til að minnka húshitunarkostnað til lengri tíma litið. Einnig er verið að leggja til að styrkja íbúðareigendur á köldum svæðum sem vilja leggja í breytingar á húsnæði sínu í sama tilgangi, þ.e. að ráðast í endurbætur sem leiða til orkusparnaðar, t.d. endurglerjun húsa, bættrar einangrunar og fleiri aðferða sem lúta að betri einangrun og bættri orkunýtingu í húshitun á köldum svæðum.

Í athugasemdum með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Hagkvæmnisathuganir á varmadælum benda til þess að slíkir kostir séu ekki samkeppnisfærir við niðurgreitt rafmagn til húshitunar nema stofnkostnaður sé að hluta niðurgreiddur. Niðurgreiðslur á rafhitun fela í raun í sér að húshitunarkostnaði er skipt á milli ríkis og íbúðareiganda. Það ætti því að vera sameiginlegt hagsmunamál beggja aðila að draga úr rafhitunarkostnaði. Núverandi niðurgreiðslukerfi dregur hins vegar úr hagkvæmni fjárfestinga, svo sem í varmadælum og viðarkyndingu, þar sem stofnkostnaður lendir allur á íbúðareiganda, en sparnaðurinn skiptist á milli ríkis og íbúðareiganda. Með frumvarpi þessu um breytingar á lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar er opnað á möguleika ríkisins til að taka þátt í stofnkostnaði við umhverfisvæna orkuöflun sem dregur úr rafhitun eða olíukyndingu. Þannig greiðir ríkið fyrir sinn hluta af framreiknuðum sparnaði sem af framkvæmdinni hlýst. Slík breyting ætti að virka mjög hvetjandi á íbúðareigendur og auka áhuga á fjárfestingum sem draga úr rafhitun þar sem styrkirnir mundu draga verulega úr stofnkostnaði framkvæmda. Á móti kemur að fjárveitingar ríkisins vegna niðurgreiðslna ættu að lækka þegar til lengri tíma er litið.“

Það er í þeim tilgangi sem lagt er til að 3% af fjárveitingu til þessa liðar verði varið til umrædds verkefnis og til endurbóta á húsnæði og minna fari í stofnstyrki nýrra hitaveitna og jarðhitaleitar. Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir 1% til orkusparandi verkefna. Þessi breyting felur í sér að 35 millj. kr. verða til ráðstöfunar í stað 12 millj. kr. samkvæmt núgildandi lögum.

Það verður að teljast ólíklegt að unnt verði að koma upp hitaveitum á köldum svæðum þar sem strjálbýlt er og kostnaðarsamt að finna jarðhita og dreifa til notenda. Þess vegna er ég sammála því að leita beri annarra leiða til að draga úr kostnaði vegna húshitunar á köldum svæðum. Þær leiðir sem hér eru boðaðar eru að mörgu leyti góðar og skapa atvinnu á þessum stöðum, sérstaklega meðal iðnaðarmanna. Hins vegar skrifuðum við þrjú undir nefndarálitið með fyrirvara, þ.e. auk mín hv. þm. Kristján Þór Júlíusson og Herdís Þórðardóttir.

Athugasemdir okkar lúta m.a. að því að spurningum varðandi það hversu mikil þörfin er er ósvarað og ekki liggur fyrir áætlun um líklegan sparnað til lengri tíma litið. Ekki er heldur ljóst hvernig eigi að forgangsraða verkefnum né hvaða væntingar eru varðandi árangurinn. Og hvenær mun verkefninu ljúka?

Næstu skref til orkusparnaðar og til betri og bættari orkunýtingar ættu að felast í að horft sé til þeirra 9% heimila í landinu sem enn eru kynt með raforku. Við teljum að nýjar leiðir felist m.a. í endurbótum á húsnæði og með nýrri orkusparandi tækni. Að því leytinu til erum við sammála þeim leiðum sem frumvarpið boðar.

En minni hlutinn vill einnig benda á að ef ekki kemur til hækkunar á þeim lið fjárlaga sem vísað er til í nefndarálitinu mun þessi breyting væntanlega valda hækkun á húshitunarkostnaði hjá notendum með niðurgreiðslu. Minna fé verður eftir til beinna niðurgreiðslna þrátt fyrir að ekki sé gert ráð fyrir að það verði niðurstaðan á árinu 2009. En nokkuð ljóst er að bæði húseigendur og ríkissjóður geta þegar til lengri tíma er litið haft hag af verkefnum sem draga úr orkunotkun vegna húshitunar þar sem slíkt leiðir bæði til lækkunar húshitunarkostnaðar og niðurgreiðslna ríkissjóðs vegna húshitunar.

Í máli hæstv. iðnaðarráðherra við 1. umr. um þetta mál kom fram afar athyglisvert atriði varðandi orkusparnað og sýnir að margt jákvætt er að gerast í orkusparnaðarmálum á ýmsum sviðum. Hæstv. iðnaðarráðherra gerði grein fyrir því að á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar fer fram viðamikil athugun á því hvort hægt sé að nota varmadælur til húshitunar í Vestmannaeyjum. Hafnar eru tilraunir til að freista þess að beisla varmalindina sem þar er. Sjórinn við suðurhluta Íslands er það hlýr að með tækni sem verið er að útfæra og þróa af hálfu útibús Nýsköpunarmiðstöðvar í Vestmannaeyjum og með sérfræðingum í höfuðstöðvum telja menn hugsanlegt að í framtíðinni verði hægt að hita upp töluverðan hluta Vestmannaeyjabæjar með þessum hætti. Ég tel það sem kom fram hjá hæstv. iðnaðarráðherra afar athyglisvert.

Einnig mætti líta til þess hlutverks sem Orkusetur hefur sem er að stuðla að aukinni vitund almennings og fyrirtækja um skilvirka orkunotkun og möguleika til orkusparnaðar. Að mínu mati mætti leggja meiri áherslu á þetta hlutverk Orkusetursins á komandi árum, með því að vekja fólk til umhugsunar um orkusparnað.

Við sjálfstæðismenn erum með á nefndarálitinu og styðjum málið þó með þeim fyrirvörum sem ég hef gert hér grein fyrir. Það mál sem hér um ræðir er að mínu mati gott mál, það er orkusparandi, það dregur úr styrkveitingum ríkisins til húshitunar á köldum svæðum til lengri tíma litið og það er atvinnuskapandi.

Virðulegi forseti. Ég læt máli mínu hér með lokið og tel að ég hafi gert grein fyrir þeim fyrirvörum sem við gerðum við málið.