136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[21:15]
Horfa

Frsm. iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lýsti yfir vilja og áhuga mínum á að skoða þessi mál enn frekar en nefndin hefur nú þegar gert. Við höfum bara náð því skrefi að kalla til þessa aðila, þ.e. orkusöluaðila, til að fara yfir umrædd mál og þessar hækkanir með okkur. Lengra höfum við í nefndinni því miður ekki komist. Ég veit ekki og get ekki lofað því að okkur takist fyrir þinglok að ljúka umfjöllun um jafnviðamikið mál og þetta er. Hins vegar vona ég að við berum gæfu til þess á nýju þingi að gera það, strax að loknum kosningum, takist okkur það ekki nú.

Ég ætla ekki að gefa neinar falsvonir um að okkur muni takast það á þessu þingi vegna þess að mér finnst það því miður afar hæpið en ég vona að ég og hv. þingmaður og fleiri munum eiga gott samstarf um það á nýju þingi og að menn megi almennt á nýju þingi ná góðri samstöðu um að fara vel yfir þessa þætti máls. Ég tel að þetta skipti afar miklu máli. Þetta er náttúrlega stórt byggðamál, þetta er stórt atvinnumál og líka stórt sanngirnismál og skiptir gríðarlega miklu máli í þeirri uppbyggingu sem fram undan er, að við förum ofan í alla þætti sem mögulega geti gefið tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar á Íslandi. Ég tel klárlega að þetta sé einn af þeim þáttum sem við verðum að skoða mjög vel í því samhengi.