136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[21:17]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þetta er í raun afar merkt mál sem við fjöllum um, niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar. Við búum í landi sem er þannig gert að okkur er kleift að nýta þann mikla hita sem býr í iðrum jarðar til húshitunar. Þetta felur auðvitað í sér mikla búbót fyrir stærstan hluta heimila í landinu vegna þess hversu almennt ódýrar hitaveitur eru. Stærstu hitaveiturnar í landinu er mjög ódýrar.

Það búa þó ekki allir við þann kost að geta nýtt þessar ódýru hitaveitur. Sumir landsmenn búa á svokölluðum köldum svæðum sem þurfa að treysta á aðrar og dýrari leiðir til að kynda ofna og halda hita í húsum sínum. Til að jafna stöðu þessa fólks gagnvart þeim sem búa á heitu svæðunum svokölluðu hafa verið sett þau lög sem hér eru til umfjöllunar og kveða á um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar, lög nr. 78/2002.

Þegar við horfum til þess hvernig búsetukostir í landinu eru — þrátt fyrir að við getum svo sem verið sammála um að niðurgreiðslur í einu eða öðru formi er ekkert sérstaklega gott form — er það bara þannig að ekki er hægt að bjóða íbúum landsins upp á svo mismunandi búsetukosti varðandi það hvernig þeir liggja við þeim miklu náttúruauðlindum sem við höfum hér á landi og getum nýtt til að hita húsin okkar, sem er stór þáttur í því hversu góð lífskjör eru hér á landi.

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um frumvarp hæstv. iðnaðarráðherra sem hann hefur lagt fram til breytinga á umræddum lögum. Frumvarpið gerir í fyrsta lagi ráð fyrir að heimila veitingu styrkja til að taka í notkun varmadælur og aðra umhverfisvæna tækni sem hægt er að nota til húshitunar á köldum svæðum landsins og í öðru lagi að heimila styrkveitingar til að endurbæta íbúðarhúsnæði á köldum svæðum með orkusparandi aðgerðir í huga.

Ég hef átt sæti í nefndum sem hafa fjallað um þessar niðurgreiðslur og hvernig best sé að huga að því að horfa til lengri tíma til að fleiri geti nýtt óhagkvæmari hitaveitur á köldum svæðum þar sem jarðhiti er þó til staðar. Einnig að gera fólki kleift að endurbæta hús sín þar sem ekki er möguleiki á ódýrum húshitunarkostum, jafnvel að fólk þurfi að nýta olíu til upphitunar á íbúðarhúsnæði, sem er aftur á móti leið sem við viljum reyna að forðast sem mest við getum, þ.e. að nýta olíu, sem er innfluttur mengandi orkugjafi. Eins og tíðarandinn er er eðlilegra að við reynum að nota jarðhitann og raforku. Raforkan hefur hins vegar þá ókosti að vera dýrari og þess vegna eru tilkomin þau ákvæði að greiða niður rafhitunina og þá aðra dýrari orkukosti.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að markmið þeirra breytinga sem lagðar eru til séu þríþættar, í fyrsta lagi að draga úr húshitunarkostnaði íbúa á svæðum sem ekki eru búin hitaveitu, í öðru lagi að draga úr kostnaði ríkissjóðs til lengri tíma litið og í þriðja lagi að ýta undir atvinnuskapandi verkefni. Þetta eru í sjálfu sér góð markmið ef við horfum á hvað er til þess að draga úr kostnaði ríkissjóðs til lengri tíma litið, þ.e. ef tekst að draga úr húshitunarkostnaði á köldum svæðum þar sem fólk nær að einangra hús sín eða gera þau þannig úr garði að þau nýti minni orku og síðan þeir styrkir sem hafa verið til hitaveitna. Mér sýnist að þarna sé stefnt að því að draga úr því til lengri tíma og gera menn þá væntanlega ráð fyrir að á einhverjum ákveðnum tíma verði búið að virkja á köldu svæðunum þannig að þeir kostir verði í rauninni fullnýttir á einhverju ákveðnu árabili. Þetta eru virðingarverð markmið og jafnvel nauðsynleg á þeim umbrotatímum sem við nú lifum að taka til þeirra ráðstafana að ýta undir atvinnuskapandi verkefni.

Hér kemur fram breytingartillaga frá iðnaðarnefnd um að styrkirnir skuli lækka í réttu hlutfalli við orkusparnað og/eða bætta orkunýtingu í stað þess að þeir falli alveg niður. Þetta er þá væntanlega í samræmi við umsagnir sem komu frá Rarik og fleiri aðilum sem fjölluðu um þetta mál og hafa séð um framkvæmd á a.m.k. rafhitunarþættinum.

Nefndin gerir athugasemdir við hugtakið umhverfisvæna orkuöflun sem er að finna í 1. gr. frumvarpsins og telur það of almennt orðað og leggur til frekari skilgreiningu á hugtakinu. Ég get alveg tekið undir að mjög nauðsynlegt er að gera það. Þetta er mjög til bóta enda er það kappsmál að hlutir sem þessir séu sem skýrast fram settir til að girða fyrir allan misskilning sem getur hæglega komið upp sé um illa skilgreind hugtök að ræða. Það eigum við almennt að forðast við lagasetningu. Ég tel þetta mjög til bóta hjá nefndinni að hafa tekið tillit til þessa og mjög nauðsynlegt að skýra þetta betur.

Að lokum taldi nefndin rétt að taka tillit til umsagnar sem barst frá Orkustofnun sem vildi fá sett inn í núgildandi lög ákvæði sem gengur út á að niðurgreiðslur geti verið mismunandi eftir svæðum og tryggt verði að olíukynding geti ekki orðið ódýrari en upphitun með rafmagni. Ég set spurningarmerki við það að niðurgreiðslan verði mismunandi eftir svæðum, ég held að almennt þar sem eru köld svæði eða þar sem fólk kemst ekki í tæri við ódýra orkugjafa eigi menn að vera jafnsettir fyrir því hvar sem þeir búa. Væntanlega er einhver skýring á því að menn hafa séð ástæðu til að taka tillit til þessa.

Norðurorka skilaði inn umsögn til nefndarinnar vegna frumvarpsins og þar er dregið fram atriði sem nefndin tekur ekki afstöðu til að því er ég fæ best séð, hvorki í breytingartillögunni né nefndaráliti. Í umsögn Norðurorku segir, með leyfi forseta:

„Norðurorka hf. vill árétta að fyrirtækið hefur á síðastliðnum árum unnið að uppbyggingu nýrra veitna og stækkað veitur á þjónustu svæði sínu. Hefur verið farið í þessar framkvæmdir á grundvelli samninga um að niðurgreiðslur gangi til framkvæmdanna í samræmi við þau lög sem hér eru til umfjöllunar. Um verulega fjárfestingu hefur verið að ræða í hlutfalli við stærð fyrirtækisins. Af þessu tilefni vill Norðurorka hf. enn og aftur minna á og gera athugasemdir við það verklag sem hefur tíðkast þegar kemur að greiðslu á hlut ríkisins í þessum framkvæmdum. Er þá vísað til þess mikla dráttar sem iðulega hefur orðið á því að ríkið greiði sinn hlut í framkvæmdunum, sem hefur leitt til þess að Norðurorka hf. hefur þurft að bera verulegan fjármagnskostnað sem skekkir allar forsendur viðkomandi framkvæmdar, ekki síst í ljósi þeirra lánskjara sem í boði eru og þeirrar áhættu sem getur verið fólgin í lántöku.

Í þessu ljósi kann það að skjóta skökku við að verið sé að draga fjármuni til annarra verkefna á þessu sviði með þeim hætti sem lagt er til, þótt þau séu í eðli sínu góðra gjalda verð. Er því mikilvægt að nauðsynlegir fjármunir til verkefnanna verði tryggðir og þá þar með talið til þeirra úrræða sem frumvarpið gerir ráð fyrir nái það fram að ganga.

Í þessu samhengi verður einnig að leggja áherslu á að fram fari skoðun á öllum kostum í hverju falli, þannig að uppbygging og stækkun veitna sé ekki slegin út af borðinu of fljótt, þótt aðrir kostir séu til í stöðunni, eins og réttilega kemur fram í frumvarpinu.“

Hæstv. forseti. Ég tel rétt að halda þessu sjónarmiði á lofti hér í umræðunni. Þarna er bent á atriði sem vert er að skoða og hafa í huga við afgreiðslu málsins. Ég vildi gjarnan heyra frá formanni nefndarinnar hvort þetta hefði verið skoðað og hvaða afleiðingar þetta gæti haft, þessi áherslubreyting sem þarna verður, einmitt vegna uppbyggingar á nýjum veitum. Fyrirtæki eins og Norðurorka hefur lagt mikið á sig til að stækka sitt svæði og ná til svæða þar sem ekki hefur áður verið kostur á hitaveitu. Ég vildi gjarnan heyra frá formanni nefndarinnar hversu vel var farið ofan í þessi atriði hjá nefndinni.

Mér finnst líka aðeins skorta á — ég sé það a.m.k. ekki í gögnum málsins eða þeim sem ég hef séð — að það sé metið hvernig þetta kemur við heimilin. Er breyting á niðurgreiðslunum sem fara beint til heimilanna? Mun þetta hafa áhrif á þann kostnað sem heimilin verða fyrir á köldum svæðum? Er verið að draga fjármagn út úr beinu niðurgreiðslunum til að — ég sé a.m.k. að hér er vísað til fjárlaganna — krónutala þeirra sé alltaf miðuð við fjárlögin? Þess vegna vildi ég heyra hvort verið væri að lækka beinu niðurgreiðslurnar til heimilanna þannig að þetta gæti haft áhrif á það hvernig hagur heimilanna á köldum svæðum kemur út úr þessum breytingum.