136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[21:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Eftir hið mikla áfall sem Íslendingar lentu í sl. haust ríður á miklu að finna aðrar lausnir, hugsa út úr kassanum, sjá aðrar lausnir en viðgengist hafa og þetta er ein af þeim. Þegar Sovétríkin voru upp á sitt besta, ég tek það alltaf sem dæmi, fóru menn í framkvæmdir og iðnvæddu án tillits til kostnaðar. Þá var styrkur hérna og styrkur þarna og það kom í ljós að allt heila kerfið var óarðbært og Sovétríkin bjuggu til mikla fátækt í fyrsta lagi og svo hrundi allt kerfið eftir 70 ára tilraunastarfsemi.

Húshitunarstyrkurinn er af svipuðum meiði. Menn hafa komist að því að það er miklu dýrara að hita hús úti á landi en í Reykjavík eða á öðrum stöðum, t.d. á Sauðárkróki þar sem er verulega ódýrt að hita og hugsanlega mætti skoða þar auðlindagjald í því sambandi en ég ætla kannski ekki endilega að leggja það til. Þá detta menn niður á billegustu lausnina og það er að niðurgreiða húshitunarkostnaðinn, það er alls staðar til rafmagn og menn fara að niðurgreiða rafmagnshitun til húshitunar.

Rafmagnshitun er ekki endilega ódýrasta leiðin til að hita hús, langt í frá. Það þarf að byggja spennivirki, það þarf að leiða rafmagn yfir heiðar og það er heilmikill kostnaður fólginn í því að koma orkunni til neytandans þannig að svona niðurgreiðslur skekkja notkunina. Eitthvað sem kostar heilmikið í reynd er gert ódýrt og eftirspurninni haldið uppi með lágu verði. Sem betur fer er ekki mikið um svona niðurgreiðslur á Íslandi þar sem kostnaðarvitundin er tekin úr sambandi, þetta eykur eftirspurnina eftir þessari orku og gerir aðra möguleika vonlausa. Til dæmis borgar sig ekki að leita eftir heitu vatni af því að raforkan er svo ódýr. Menn nota ekki rekavið eða aðra orkugjafa sem eru oft á staðnum, eða fara í fjarhitun vegna þess að raforkan er svo ódýr að hún er í rauninni ekki samkeppnisfær eftir að búið er að niðurgreiða hana. Varmadælur og önnur slík tækni sem hugsanlega mætti nota í þessum dæmum er ekki nýtt vegna þess að rafmagnið er niðurgreitt. Hvað gera menn þá, herra forseti? Þá fara menn að niðurgreiða þessa samkeppnisorkugjafa, þ.e. menn fara að styrkja borun eftir heitu vatni, menn fara að styrkja varmadælur og annað slíkt til að gera það sem er kannski skynsamlegast á staðnum sem er að nota aðra orkugjafa en rafmagn af því að rafmagnið er í reynd miklu dýrara. Menn setja upp alls konar flókin kerfi til þess að styrkja eða spara í fimm ár eða sjö ár og alls konar reglur og ríkið styrkir gerð slíkra orkugjafa.

Það væri miklu einfaldara að reikna út á hvaða svæðum við ætlum að hafa styrki og hafa t.d. búsetustyrki miðað við hvern íbúa eða rúmmetra í íbúðarhúsnæði eða eitthvað slíkt, einhver hlutlæg viðmið. Síðan fengju menn bara sína, hvað á að segja, milljón á ári eða hver sem styrkurinn er, hver fjölskylda, ég þekki það ekki. Þetta eru þúsund milljónir, ef um er að ræða þúsund fjölskyldur þá er þetta milljón á fjölskyldu, það má örugglega leiðrétta mig í því en það skiptir ekki máli. Það mætti láta fólkið fá þessa peninga og þá gæti það keypt sitt rafmagn og væri nákvæmlega eins sett að meðaltali og sennilega miklu réttlátar, og þeir sem vilja gætu einangrað húsin betur. Það sparar líka pening og þegar orkan er svona dýr eiga menn að sjálfsögðu að gera það. Þeir geta farið að leita að öðrum orkugjöfum í samkeppni sem geta þá keppt við þetta dýra rafmagn. Svona niðurstaða mundi leiða til eðlilegrar notkunar og leitun að orku á því svæði sem um ræðir en ekki svona skipulagi ofan frá, frá græna borðinu eins og í Sovétríkjunum. Þess vegna held ég að menn þurfi núna þegar þjóðin lendir í svona áföllum að leita leiða til að spara þennan pening, 1.000 millj. kr. því að það er mikill peningur og getur hugsanlega leitt til betri lífskjara á viðkomandi svæði. Til dæmis að einangra hús betur og spara orkuna kostar fjárfestingu fyrir einstaklinginn og hann fer ekki út í það ef bæði rafmagnið er niðurgreitt og líka samkeppnisorkugjafinn. Þá er bara orkan of ódýr miðað við það sem hún kostar raunverulega því ríkið er að borga hvort tveggja, bæði hitaveituna með styrkjum og líka raforkuna. Þá kemur aldrei í ljós hvað orkan kostar í rauninni, hvað það kostar að hita húsin. Það getur vel verið að á vissum svæðum borgi sig að setja töluverða peninga í einangrun vegna þess að orkan er svo dýr. Þetta er eitt af því sem gerist þegar menn fara að skekkja markaðinn. Ég held að núna þegar þjóðin hefur lent í þessum áföllum þá þurfi menn að fara virkilega að leita að skynsamlegri leiðum, t.d. með búsetustyrkjum o.s.frv.

Ég ætla ekki að tefja þetta mál en ég mátti til með að koma þessu að. Þetta er reyndar gömul plata. Ég spilaði hana fyrir svona sex árum en hún er ekkert verri núna og á sérstakt erindi eftir þau áföll sem þjóðin hefur lent í.