136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[21:39]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þó að ég sé að öllu jöfnu mjög sammála hv. þm. Pétri Blöndal, jafnvel um áherslur hans og yfirleitt alltaf um nauðsyn samkeppni og að við eigum ekki að fara út í einhvers konar sovétkerfi þá held ég samt sem áður að þetta sé ekki þess eðlis. Þetta er ekki þannig að eftirspurn sé haldið uppi fyrir dýrri orku niðurgreiddri. Þetta er einfaldlega spurning um hvað er mögulegt á hverju svæði. Hv. þingmaður nefndi að það væri verið að hindra nýtingu annarra orkugjafa en í þessu tilfelli er þetta spurning um að aðrir orkugjafar eru ekki til staðar. Hins vegar hafa verið alls konar átök uppi og það hefur verið reynt að leggja áherslu á að leita að hita á svokölluðum „köldu svæðum“, dálítið einkennilegt að orða það þannig en þetta eru svæði sem eru aðallega á Vestfjörðum og Austfjörðum. Þar hefur verið lagt í töluvert mikla vinnu og ég get fullyrt það og fullvissað hv. þingmann um að sveitarfélögin hafa almennt lagt á sig mikinn kostnað til að leita að hita á þessum köldu svæðum og sums staðar hefur það tekist. Ég nefni t.d. Eskifjörð þar sem er komin hitaveita núna.

Af hverju eru menn að leggja þetta á sig á þessum köldu svæðum? Það er einfaldlega vegna þess að þetta er spurning um lífsgæði, lífsgæði þeirra íbúa sem þarna búa því það eru lífsgæði að hafa hitaveitur og auðvitað vilja menn leggja í töluverðan kostnað við það að búa þegnum sínum þessi lífsgæði.