136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[21:43]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Allt eru þetta göfug markmið. Ég er alveg sammála því að það á ekki að vera að niðurgreiða það sem ekki er þörf á að niðurgreiða. En ætli hlutföllin séu ekki þannig að hv. þm. Pétur Blöndal borgi svona 5 þús. kr. á mánuði fyrir húshitun í Reykjavík meðan ég borga 15 þúsund kr. fyrir húshitun mína austur á Seyðisfirði, meira að segja niðurgreidda? Ég skal taka það fram fyrir hv. þingmann að ég hef lagt eina til tvær millj. kr. í kostnað við að einangra húsið mitt til að eyða minna í húshitunarkostnaðinn og þá minni peningum frá ríkinu í niðurgreiðslurnar, en þetta eru hlutföllin. Það er þetta mikið dýrara að hita hús úti á landsbyggðinni og þessi tilraun ríkisvaldsins, sem ég er í þessu tilfelli algerlega sammála, snýst um að jafna búsetukosti. En það tekst ekki betur en svo að hlutföllin eru sennilega þannig að kostnaður á höfuðborgarsvæðinu er sennilega einn þriðji hluti af því sem kostar að hita húsnæði úti á landi. Þannig eru þessi hlutföll og auðvitað má segja að það eigi að bíða eftir að menn finni lausnir á þessu en það er ekki raunveruleikinn að menn séu búnir að finna þær lausnir. Meðan svo er þá styð ég þessar niðurgreiðslur varðandi húshitunarkostnað hjá þeim sem ekki eiga annarra kosta völ í húshitun.