136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[21:47]
Horfa

Herdís Þórðardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins koma aftur upp og gera grein fyrir þeim umsögnum sem iðnaðarnefnd bárust um frumvarp um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar. Ég vil líka geta þess að það er dýrt að búa á Íslandi, við verðum að gera okkur grein fyrir því. Það er erfitt fyrir fólk sem býr á Vestfjörðum og Austfjörðum að vera í samkeppni við okkur sem búum á heitu svæði. Það er dýrt að kynda húsin og með frumvarpinu tel ég að við séum að jafna búsetukostnaðinn.

Mig langaði aðeins til að vitna í umsögn sem barst frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þar segir, með leyfi forseta:

„Lögfræðisvið Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur yfirfarið frumvarpið og haft samráð við formann Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum um efni þess. Sambandið gerir ekki athugasemdir við frumvarpið og mælir með því að það verði samþykkt.“

Þetta segir nú svolítið mikið um það hvað þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir Samtök sveitarfélaga sem náttúrlega vinna til hagsbóta fyrir þau sveitarfélög sem eru á þessum svæðum, og það höfum við tekið til umfjöllunar í iðnaðarnefnd.

Iðnaðarnefnd fékk jafnframt bréf um olíukyndingu, óhagkvæmni hennar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Því miður má enn finna olíukyndingar á köldum svæðum landsins, bæði í heimahúsum sem og félagsheimilum og þaðan af miklu stærra iðnaðarhúsnæði. Algengur fylgifiskur olíukyndingar eru gamlir og lúnir brennarar þar sem allt frá 20–50% af orkuinnihaldi olíunnar tapast út um skorsteininn.

Nýlega var skipt úr olíuhitun yfir í varmadælur í húsakynnum Ísnets á Höfn í Hornafirði. Við reiknum með að orkunotkunin falli niður í u.þ.b. 1/5 af því sem áður var og fylgjumst að sjálfsögðu með hvort sú spá gengur eftir.

Annað nýlegt dæmi er bærinn Vigdísarstaðir skammt frá Hvammstanga. Sigurgeir Magnússon hefur verið að nota um 4.000 lítra af olíu árlega sem kostaði hann um 400.000 kr. á síðasta ári.“

Hæstv. forseti. Við búum á Íslandi við jarðvarma sem er nánast um allt land og við hitum upp híbýli okkar með jarðvarma. Ég veit ekki betur en að alls staðar úti í heimi sé horft til okkar á Íslandi, hvað við búum vel og hvað við séum öflug að orku. En ef við ætlum að halda uppi byggð í landinu verðum við að styrkja við þessi köldu svæði á landinu til þess að þau verði sambærileg því heita svæði sem við búum á. Í allri þeirri þenslu sem verið hefur hér undanfarin ár hafa þessi svæði út um landið ekki tekið þátt í darraðardansinum á Stór-Reykjavíkursvæðinu og öllu því bruðli sem átt hefur sér stað hjá landsmönnum. Landsbyggðin, eins og oft hefur verið sagt, er 20 árum á eftir höfuðborgarsvæðinu hvað varðar framfarir og annað.

Ég vildi aðeins koma þessu að aftur þó að ég hafi verið búin að tala og koma máli mínu áleiðis, herra forseti.