136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[21:58]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstvirtur forseti. Ég er nú kannski ekki alveg búin að ná þessu, hvernig þetta er hugsað, en eins og ég skil orð hv. þingmanns þá mun þetta til skamms tíma — er verið að tala núna um það að draga úr þeirri krónutölu sem fer til hvers heimilis á hverja kílóvattstund. Ef taka á frá 1% upp í 3% yfir í orkusparandi aðgerðir, sem ég er í sjálfu sér ekki á móti, þá erum við að tala um að það sem er til ráðstöfunar til beinna niðurgreiðslna muni lækka sem þýðir að hver kílóvattstund er niðurgreidd minna en áður hefur verið.

Til lengri tíma þá getur þetta orðið — ef menn taka það almennt upp að fá sér varmadælur og breyta notkun sinni hvað það varðar að nýta orkuna betur sem mér finnst alveg eðlileg stefna. Ef þetta er hins vegar réttur skilningur hjá mér þá verður að gera betur grein fyrir því að þetta geti haft áhrif á orkureikning á hverju heimili núna til skamms tíma, þar til fólk hefur þá ráðist í þær aðgerðir að fá sér varmadælu og breyta orkunotkun sinni til húshitunar (Forseti hringir.) sem vissulega er mögulegt.