136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

visthönnun vöru sem notar orku.

335. mál
[23:00]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hlustaði mjög grannt eftir, sennilega hefur hún ekki gert það, enda orðin langþreytt eftir langa dvöl í þinghúsinu eins og hún rakti í ræðustól áðan þegar hún byrjaði að mæla fyrir röngu frumvarpi. En það er ósköp skiljanlegt og afsakanlegt.

Ég talaði um það og lauk ræðu minni meira að segja á því að mæla með því að frumvarpið yrði samþykkt og fór fram á það að reynt yrði að koma viðunandi orðfæri á þetta ef þess væri kostur. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir upplýsti að ítarleg umræða hafi farið fram um málið í nefndinni, a.m.k. að nefndarmenn hafi skilið við hvað væri átt, og á það bent að þarna væri um að ræða hluti þar sem almennt væri verið að setja umbúðir utan um almennar merkingar á orkusparandi vörum. Af hverju kemur það ekki fram í heiti frumvarpsins? Af hverju heitir frumvarpið Um visthönnun vöru sem notar orku? Af hverju heitir frumvarpið ekki Um merkingar á orkusparandi vörum? Væri það ekki eðlilegra og væri það ekki auðskiljanlegra fyrir venjulegt fólk ef frumvarpið bæri það heiti sem það á að fjalla um heldur en vera með einhvers konar nýyrðaflaum eins og þarna er um að ræða.

Það eina sem ég gerði athugasemdir við var — ég eyddi meginhlutanum af ræðu minni fyrir utan það að lofa frumvarpið og nauðsynlegt væri að samþykkja það — að 1. gr., þ.e. markmiðssetningargreinin, væri mjög óglögg. Það sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir talaði um að væri meginmarkmið greinarinnar var miklu gleggra og skiljanlegra eins og hún orðaði það í andsvari sínu áðan. Af hverju notum við ekki það orðalag frekar?