136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

raforkulög.

398. mál
[23:36]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja að mér finnst hv. þingmaður, sem er þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, tala af miklu gáleysi um það merka fyrirtæki sem Orkuveita Reykjavíkur er. Að koma hingað og tala með þeim hætti að einhver sérstök vá standi fyrir dyrum hjá því orkufyrirtæki umfram önnur getur veikt stöðu þess. Í máli hv. þingmanns hefur komið fram að fyrirtækið stendur nú í samningum um endurfjármögnun. Hv. þingmaður veit það eins og ég bara af lestri dagblaða að það fyrirtæki og önnur orkufyrirtæki hafa átt í erfiðleikum varðandi fjármagn. Í fjölmiðlum kom fram að fyrirtækið sem hér um ræðir átti í erfiðleikum með að fá ákveðin lán, sem góðu heilli er nú búið að ganga frá aftur.

Ég vil í tilefni af orðum hv. þingmanns lýsa yfir fullum stuðningi við forustumenn Orkuveitu Reykjavíkur, sem ég hef átt gott samstarf við, og ég tel að Hjörleifur Kvaran og aðrir sem stýra því fyrirtæki geri það ákaflega vel við mjög erfiðar aðstæður. Allir vita hvernig heimskreppan og þrengingar á alþjóðlegum lánamarkaði hafa farið með íslensk fyrirtæki og þar er ekkert undanskilið. Sem betur fer vinnur það fyrirtæki mjög vel úr sínum málum. Það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni að fyrirtækið taldi nauðsynlegt að fá sex mánaða frest á þessu tiltekna ákvæði. Ég hafði fullan skilning á því og það sem meira er, félagar hv. þingmanns hafa fullan skilning á því. Sjálfstæðismenn í hv. iðnaðarnefnd eru sammála þessu. Þeir hafa farið yfir þetta og ég vil verja þingmenn Sjálfstæðisflokksins í iðnaðarnefnd, en formaður þeirra kemur hér og snuprar þá í hverju málinu á fætur öðru og leyfir sér síðan að tala af ábyrgðarleysi og gáleysi um eitt af þeim fyrirtækjum sem skiptir mjög miklu máli fyrir velferð almennings í Reykjavík.

Ég mótmæli því að formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins skuli með þessum (Forseti hringir.) hætti tala um eitt af burðarfyrirtækjunum (Forseti hringir.) í Reykjavík.