136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

raforkulög.

398. mál
[23:42]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir það að hann gat á endanum svarað spurningunum sem hér voru lagðar fyrir. En mér finnst algjör óþarfi hjá hæstv. ráðherra að svara með einhverjum skætingi þegar ég vitna í skjöl sem fyrirtæki á hans vegum senda inn, athugasemdir við mál sem hann sjálfur flytur. (Gripið fram í.)

Hæstv. ráðherra hlýtur að skilja það (Gripið fram í.) að við þingmenn verðum að fá svör og algjör óþarfi er að svara því með einhverjum skætingi. (Iðnrh.: Þetta er bara syfjulegt mál.) Hæstv. forseti. Það er lágmarkskrafa að hæstv. ráðherra geti svarað með málefnalegum hætti þegar hann er spurður spurninga varðandi þau þingskjöl sem hér liggja frammi og þær ræður sem hæstv. ráðherra hefur haldið hér á Alþingi.

Þetta er ekki flóknara mál en það að ég spyr um það og hæstv. ráðherra svaraði á endanum að þetta hefði engin áhrif á Helguvík og það þykir mér gott að heyra og það var gott að fá þau svör. Það skýrir heilmikið það sem við erum með í höndunum og algjör óþarfi að svara því með einhverjum skætingi. Þetta eru einfaldar spurningar sem eru bornar upp til að skýra þau mál sem við afgreiðum hér í kvöld. Hvurslags eiginlega er það að ráðherrann geti ekki látið svo lítið að svara hér án þess að vera með skæting. Á endanum komu nú svörin en með því formi að hann þurfti að hnýta við einhverjum leiðinda (Forseti hringir.) skætingi. (Gripið fram í.)