136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

raforkulög.

398. mál
[23:45]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir að sjá af dýrmætum tíma sínum til að fylgjast með umræðu um þetta mál, svo sem farið var fram á, og hafa þegar tekið til máls og sett sitt mark á umræðuna með afgerandi hætti þó að ekki væri það að öllu leyti málefnalegt frekar en von er og vísa þegar svo áliðið er dags sem raun ber vitni.

Það frumvarp sem hér er um að ræða er mjög einfalt og fjallar um að fresta ákveðnum ákvæðum sem Alþingi samþykkti í júní 2008. Gerð var krafa um að samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi orkufyrirtækja yrði rekin í aðskildum fyrirtækjum. Þarna var sett fram ákveðin krafa af hálfu löggjafarvaldsins um sérgreiningu sem væri til hagsbóta fyrir neytendur þar sem ekki væri ruglað saman samkeppnisþáttum sem ættu að vera á almennum markaði og ekki endilega undir handhöfn opinberra fyrirtækja eða hálfopinberra fyrirtækja eins og þau orkufyrirtæki sem hér ræðir um og var sérstaklega minnst á í frumvarpinu, greinargerð með því og nefndarálitum, þ.e. Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja. Það má ekki rugla saman hreinlega fjárhagslegum hagsmunum á milli samkeppnisþáttanna sem komu ekki grunnþjónustunni við sem skiptir mestu máli fyrir almenna neytendur að sé í lagi og sé seld með eðlilegum hætti og sem ódýrust. Og það verður að segja það alveg eins og það er, hæstv. iðnaðarráðherra, að með fullu tilliti og virðingu fyrir því ágæta fyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur fór það á sínum tíma, undir stjórn R-listans í Reykjavík þar sem ágætur framsóknarmaður veitti forstöðu stjórn Orkuveitunnar, Alfreð Þorsteinsson, út í margháttaðan samkeppnisrekstur, m.a. risarækjueldi auk margra annarra hluta þar sem miklum fjármunum Orkuveitunnar var varið í alls konar gæluverkefni R-listans. Ég skal fúslega taka undir það með hæstv. iðnaðarráðherra að eftir því sem ég best fæ séð sinnir hinn ágæti forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur í dag, Hjörleifur Kvaran, starfi sínu með miklum ágætum og nær væntanlega að rétta af það sem misfórst á þeim tíma þegar R-listinn, þ.e. flokkur hæstv. iðnaðarráðherra ásamt nokkrum öðrum, stóð að stjórnun þessa fyrirtækis. Þá fór margt aflaga, m.a. vegna þess að ekki var um aðskilnað að ræða á milli grunnþjónustunnar og samkeppnishluta fyrirtækisins. Það hefði verið æskilegt að hafa þennan aðskilnað löngu fyrr og að löggjafinn hefði gripið inn í þegar farið var í þær ævintýraferðir sem R-listinn fór í með Orkuveitu Reykjavíkur með því að leggja út í alls kyns hluti og starfsemi sem alls ekki var á sviði Orkuveitunnar að hafa nein afskipti af. Ég veit að hæstv. iðnaðarráðherra er mér algerlega sammála um að þar var illa staðið að málum, og ógætilega, og þeir fjármunir sem þannig var hent á bál vegna óígrundaðra fjárfestinga til annarra hluta en sem skiptu orkuneytendur í Reykjavík máli eru núna grunnurinn að vanda Orkuveitu Reykjavíkur sem fram kemur í greinargerð með lagafrumvarpinu og nefndarálitinu sem hér fylgir.

Það verður þó að segja, virðulegur forseti, að það er svolítil rökvilla í frumvarpinu eins og athugasemdir eru settar fram í greinargerð. Í fyrsta lagi er gerð grein fyrir því að Orkuveita Reykjavíkur hafi farið þess á leit við iðnaðarráðuneytið með bréfi 20. febrúar að ráðherrann hlutaðist til um að flutt yrði frumvarp til laga um frestun gildistöku breytingar á 14. gr. raforkulaganna. Núna mánuði síðar erum við að fjalla um þetta frumvarp. Látum það nú vera, en hvað er talið mæla með því að fresta gildistökunni?

Í fyrsta lagi er gerð grein fyrir því að Orkuveita Reykjavíkur hafi 7. júní hafist handa við að gera nauðsynlegar breytingar og eins og kemur fram í bréfinu frá 20. febrúar að stjórn og starfsmenn hefðu unnið að undirbúningi skiptingar fyrirtækisins í samræmi við áskilnað laganna og yfirfarið þær leiðir sem til greina koma við útfærslu hennar. Þetta var sem sagt þar. Fyrst þar var unnið svona hörðum höndum að því að gera þá uppskiptingu sem um var að ræða milli samkeppnisþáttarins og grunnþarfanna væri eðlilegt að Alþingi væri gerð glögg grein fyrir undirbúningnum og hvaða störf hefðu verið unnin hvað varðar þennan aðskilnað. Mér finnst alla greinargerð fyrir því skorta í því frumvarpi sem hér liggur fyrir eða greinargerð með því. Það er engan veginn sagt frá því hvaða hlutir hafi verið unnir af hálfu Orkuveitu Reykjavíkur til að aðskilja þessar tvær rekstrareiningar. Samkvæmt því sem Orkuveitan gerir grein fyrir í bréfinu frá 20. febrúar hefur þarna bara verið byrjað að vinna vinnuna en þess er ekki getið að í bréfinu hafi komið neitt fram um það með hvaða hætti því verki miðaði þannig að það lægi fyrir að þarna væri í raun um einhverja alvöruvinnslu á málinu að ræða í samræmi við lögin. Það eina sem kemur fram í greinargerðinni með frumvarpinu er að í bréfinu komi fram að stjórn og starfsmenn hafi unnið að undirbúningi skiptingar fyrirtækisins í samræmi við áskilnað laganna og yfirfarið þær leiðir sem til greina koma við útfærslu hennar.

Ég hlýt að spyrja: Var bara það gert af hálfu Orkuveitunnar og er hæstv. iðnaðarráðherra kunnugt um það í hvaða hlutum aðgerðir Orkuveitunnar og starfsmanna hennar fólust í þessu sambandi? Var það eingöngu fólgið í því sem kemur fram í greinargerðinni, að vinna að undirbúningi að skiptingu fyrirtækisins? Var ekkert annað gert en að vinna að undirbúningi? Ef unnið var að undirbúningi, með hvaða hætti var þá unnið að honum?

Þegar um rekstrareiningar er að ræða er í sjálfu sér hægt að ganga frá skiptingu fyrirtækisins, þ.e. skipta því milli grunnþjónustu og samkeppnisrekstrarins, án þess að það hafi einhver veruleg fjárútlát í för með sér eða rugli lánafyrirgreiðslu fyrirtækisins eða fjárþörf þess. Það er mælt fyrir um það og það rökstutt í greinargerðinni þannig að hins vegar kunni breytingar á rekstrarumhverfi fyrirtækisins áður en fjármögnun er lokið að tefja fyrir gerð lánasamninga. Ég hlýt að spyrja vegna þessara ummæla í greinargerð, hæstv. iðnaðarráðherra, að hvaða leyti breytingar á rekstrarumhverfi fyrirtækisins áður en fjármögnun er lokið geti tafið fyrir gerð lánasamninga. Fjárþörf fyrirtækisins er varla til komin 20. febrúar. Það liggur alveg fyrir hvernig hefur þurft að fjármagna fyrirtækið til lengri eða skemmri tíma þannig að það dettur ekkert ofan úr himninum hvað það varðar. Það er bara spurningin um að hvaða leyti breytingar á rekstrarumhverfi fyrirtækisins geti tafið fyrir gerð lánasamninga. Við erum að tala um sama fyrirtækið. Það er eingöngu verið að aðskilja ákveðna rekstrarþætti. Það er ekki verið að rýra eignir fyrirtækisins, það er ekki verið að takmarka getu fyrirtækisins til að standa við fjárskuldbindingar sínar. Hvernig í ósköpunum ættu þá breytingar á rekstrarumhverfi hvað þetta varðar að tefja gerð lánasamninga?

Ég hlýt að gera kröfu til þess að gerð verði nákvæm grein fyrir því með hvaða hætti það getur tafið fyrir gerð lánasamninga að ákvæði laga taki gildi á þeim tíma sem löggjafarvaldið ákvað 7. júní 2008 að ætti að gerast. Eitt fyrirtæki getur ekki bara gert kröfu vegna þess að það sér fram á erfiðleika við að standa við lög sem hafa verið sett á Alþingi, að fara þá fram á frestun gildistöku á ákvæði sem var löngu tímabært að yrði sett í lög og yrði að veruleika. Það skiptir miklu máli fyrir okkur neytendur og hefði þurft að komast á, virðulegi forseti, fyrir mörgum árum áður en R-listinn fór í þá hættulegu vegferð með Orkuveitu Reykjavíkur sem neytendur í Reykjavík súpa nú seyðið af. (Iðnrh.: Er þetta árás á Guðlaug Þór Þórðarson?) Nei, ég sagði áður, ég sagði í tíð R-listans. Hæstv. iðnaðarráðherra hlýtur að vita að það var ekki Guðlaugur Þór Þórðarson sem stóð að R-listanum eða var þar sporgöngumaður, heldur voru þar ákveðnir stjórnmálaflokkar, aðeins til upprifjunar fyrir hæstv. iðnaðarráðherra (Gripið fram í.) voru það stjórnmálaflokkarnir Samfylking, flokkur hæstv. iðnaðarráðherra, Vinstri grænir og Framsóknarflokkurinn sem mynduðu R-listann. Það var á þessum tíma sem var lagt út í alls kyns samkeppnisrekstur og samkeppnishluti sem voru algjörlega óviðkomandi grunnþörfum og grunnþáttum og því sem Orkuveitan hafði byggst á og á að byggjast á, þ.e. þjónustu við orkukaupendur í Reykjavík og að selja neytendum í Reykjavík raforku á lágmarksverði. Það var þar sem hlutirnir gerðust og fóru að fara úrskeiðis, virðulegi forseti. Það er það sem ég gerði að umtalsefni.

Í andsvari hæstv. iðnaðarráðherra áðan við hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur sneri hann eiginlega hlutunum nokkuð á haus með því að vísa til þess sem nú er að gerast í staðinn fyrir það hvaða upphaf hefði í raun valdið því ófremdarástandi í fjármögnun sem Orkuveitan stendur frammi fyrir að leysa í dag. Það er til komið fyrir löngu og er ekki nýr vandi. Hins vegar hafði gengisfall íslensku krónunnar að sjálfsögðu verulega þýðingu vegna þess að lánasamningarnir eru flestir í dollurum, reikna ég með, með svipuðum hætti og í Landsvirkjun en það var líka nokkuð sem stjórnendur orkufyrirtækja og fleiri í þessu landi máttu sjá fyrir, gengi íslensku krónunnar var svo gjörsamlega allt of hátt skráð og það hlaut að koma til þess að um verulegt fall hennar yrði að ræða fyrr en síðar.

Efnahagshrunið á Íslandi byrjaði með falli gjaldmiðilsins, bankahrunið kom á eftir, m.a. vegna þess að gjaldmiðillinn hafði fallið og það var ekki til gjaldeyrir til að standa við skuldbindingar sem fjármálastofnanirnar höfðu bundið sér. Sami vandi hrjáir núna í raun orkufyrirtækin vegna þess að vegna ofurvaxta í íslenskri krónu voru líka fyrirtækin hrakin út úr því að nota íslenskan gjaldmiðil til lántöku, hrakin í það að taka lán í erlendri mynt með þeim afleiðingum sem þau eru nú að uppskera, en á þeim tíma sem þau gerðu það og gátu notið vaxtamunarins á milli erlends gjaldmiðils og hávaxtagjaldmiðilsins, íslensku krónunnar, nutu þau forréttinda sem íslenskir neytendur nutu ekki.

Þessir hlutir og þessi röksemdafærsla fyrir frestuninni finnst mér satt að segja vera nokkuð rýr í roðinu, hæstv. iðnaðarráðherra, og í niðurlagi greinargerðar með frumvarpinu segir:

Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru á fjármálamörkuðum og viðkvæmrar stöðu orkufyrirtækjanna varðandi fjármögnun má fallast á að rétt sé að fresta tímabundið framkvæmd ákvæða 14. gr. raforkulaga varðandi aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja.

Þá hlýt að spyrja: Hvaða aðstæður eru nú á fjármálamörkuðum sem réttlæta það að fresta tímabundið þeirri nauðsynlegu aðgerð að greina að þá þætti í starfsemi raforkufyrirtækja að tryggja að allir raforkuframleiðendur sitji við sama borð í samskiptum sínum við þau fyrirtæki sem annast dreifingu á raforku — eins og markmið laganna kveður á um? Ég spyr: Hvaða atriði eru það á fjármálamörkuðum sem réttlæta frestun aðgreiningar þessara þátta í starfsemi raforkufyrirtækja sem tryggja að allir raforkuframleiðendur sitji við sama borð?

Er það ekki grundvallaratriði í samkeppnisréttinum? Er það ekki grundvallaratriði í neytendaréttinum, einmitt að tryggja þessa hluti? Nú kann vel að vera, virðulegi forseti, að þær ástæður séu fyrir hendi sem geti réttlætt frestun á máli eins og þessu. Í því nefndaráliti sem fylgir er ljóst að hv. þingmenn sem sitja í iðnaðarnefnd hafa fallist á þau sjónarmið og þau rök sem þar lágu fyrir og mæla með því að frumvarpið verði samþykkt. Þeir hafa haft ákveðnar forsendur fyrir því og hugsanlega upplýsingar sem liggja ekki hér fyrir. Þess vegna spyr ég hæstv. iðnaðarráðherra þeirra spurninga sem hér hafa komið fram, mér finnst ekki alls kostar rökrænt samhengi á milli þess sem segir í greinargerðinni og þess frumvarps sem hér er flutt til frestunar.

Ég verð að spyrja líka, virðulegi forseti, hvort það sé eðlilegt að fresta því að allir raforkuframleiðendur sitji við sama borð sem var markmið þessa ákvæðis sem hér er verið að mæla fyrir frestun á. Það er höfuðatriðið. Í mínum huga þurfa að koma til mjög ríkar ástæður til að maður geti réttlætt það að samþykkja það frumvarp sem hér liggur fyrir. Eins og þau mál koma fyrir í greinargerð með frumvarpinu. og mátti skilja af framsögumanni iðnaðarnefndar áðan, hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, fékk ég ekki fyllri greinargerð með því sem á að liggja til grundvallar því að þetta frumvarp verði samþykkt svo sem iðnaðarnefnd leggur til. Eins og ég gat um áðan kunna að vera fyrir því málefnaleg rök þó að þau komi ekki fram í greinargerð með frumvarpinu og komi ekki fram í nefndaráliti eða framsögu nefndarformanns iðnaðarnefndar sem réttlætir það að við víkjum frá þeirri jafnræðisreglu sem raforkulögin miða að að verði komið á með 14. gr. raforkulaganna, nr. 65/2003. Þess vegna, virðulegi forseti, spyr ég þessara spurninga og vænti þess að hæstv. iðnaðarráðherra gefi greinargóð svör við því.