136. löggjafarþing — 112. fundur,  25. mars 2009.

fundarstjórn.

[00:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Mér finnst umræðan rétt áðan sýna hvað menn eru orðnir þreyttir og pirraðir. Og það er það sem ég óttast ef við þurfum að ræða þetta mikilvæga mál, um ábyrgðarmenn, að einbeitni og athygli þingmanna sé ekki nægilega mikil.

Ég vil gjarnan ræða það mál í dagsbirtu og ég vil gjarnan að menn séu útsofnir þegar þeir ræða það mál því að það skiptir verulegu máli að ekki sé kastað til höndunum í umræðu um það mál. Þess vegna finnst mér ekki góður bragur á þessari umræðu, að við ræðum bæði það mál og skaðabótalögin sem mér finnst skipta verulegu máli fyrir heimilin í landinu, að verið sé að ræða þau mál klukkan hálfeitt að nóttu. Við höfum svo sem oft gert það og ég skorast ekki undan því en ég er hræddur um að umræðan sé ekki eins markviss og skörp þegar menn eru dauðþreyttir að vinna svona mikilsverð mál sem skipta heimilin miklu máli.