136. löggjafarþing — 112. fundur,  25. mars 2009.

ábyrgðarmenn.

125. mál
[01:21]
Horfa

Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir orð síðasta ræðumanns og ítreka það sem ég sagði fyrr að staðfesta þingmannsins Lúðvíks Bergvinssonar og annarra flutningsmanna hér um árabil hefur orðið til þess að málið er nú komið út úr nefnd og vonandi verður það að lögum innan örfárra daga.

Að mínu viti er þetta frumvarp stórt skref í átt til heilbrigðari viðskiptahátta hér á landi og ég vil leyfa mér að fagna þeirri samstöðu sem er um málið. Það er mikil þörf á því að styrkja stoðir heilbrigðs efnahagslífs og fjármálamarkaðar á Íslandi. Ég vil eins og aðrir sem hafa tekið til máls fagna ákvörðun Kaupþings frá í dag um að fella niður ábyrgðarmannakerfið og vænti þess að sjálfsögðu að aðrar lánastofnanir feti í fótspor bankans.

Ég vil taka undir þakkir til hv. nefndarmanna í viðskiptanefnd en ég vil líka þakka öllum umsagnaraðilum, öllum þeim sem komu á fund nefndarinnar, og ekki síst starfsmönnum nefndasviðs sem aðstoðuðu nefndina við lagasmíðina því að eins og bent hefur verið á er hér um nokkuð óvanalega vinnu að ræða, ný heildarlög um ábyrgðarmenn sem eru unnin algerlega á forsendum þingsins sjálfs og innan þess en koma ekki frá framkvæmdarvaldinu. Það eru jú önnur tímamót sem ber að fagna.