136. löggjafarþing — 112. fundur,  25. mars 2009.

skaðabótalög.

438. mál
[01:23]
Horfa

Frsm. allshn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á skaðabótalögum. Frumvarpið lætur ekki mikið yfir sér en felur í sér mikla réttarbót sem beðið hefur verið eftir lengi.

Forsaga málsins er sú að skaðabótalögum frá 1993 var breytt 1999 og sú breyting hafði almennt séð mikla réttarbót í för með sér. Hins vegar voru þá jafnframt lögleiddar frádráttarreglur vegna greiðslna frá þriðja aðila sem hafa komið nokkuð hart niður á alvarlega slösuðu fólki og ekklum og ekkjum.

Alvarlega slasað fólk sem metið er með meira en 50% varanlega örorku á rétt örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins og þeir sem verst eru settir eiga einnig rétt á ýmiss konar viðbótargreiðslum, svo sem tekjutryggingu, tekjutryggingarauka, heimilisuppbót, bensínstyrk o.s.frv. Fyrir breytinguna árið 1999 voru greiðslur af þessum toga ekki dregnar frá skaðabótum. Eftir breytinguna hafa slíkar bætur hins vegar verið dregnar frá þessum hópi sem hefur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér þar sem það er alls ekki öruggt að viðkomandi fái greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins um ókomna framtíð. Það getur m.a. ráðist af hjúskaparstöðu viðkomandi tjónþola og lagabreytingum á síðari stigum eins og alkunna er. Reynslan sýnir að miklar breytingar geta verið á því hver vilji löggjafans er í bótafjárhæðum af þessum toga og einnig tekjutengingum þeirra. Þá geta tekjur tjónþola haft áhrif til skerðingar, bæði launatekjur og fjármagnstekjur.

Þessi breyting hafði annað í för með sér sem var að bætur til eftirlifandi maka voru lækkaðar verulega þannig að nú eru dregnar frá bótum til eftirlifandi maka ímyndaðar greiðslur sem hinn látni maki fær ekki en miðast við hefði hann lifað, þ.e. ef viðkomandi hefði lifað af slysið hefði hinn látni átt rétt á bótum frá almannatryggingum og lífeyrissjóði vegna örorku. Þær greiðslur fær hann ekki en samkvæmt ákvæðinu eins og það stendur í dag á að taka tillit til þessara greiðslna eins og þær hefðu verið greiddar út og draga þær frá áður en tjón makans er reiknað út. Þessi ótrúlegu öfugmæli eru engu að síður réttarstaðan eins og hún hefur verið síðustu 10 árin hér á landi.

Með hliðsjón af þessu og almennum sanngirnissjónarmiðum leggur allsherjarnefnd til tvenns konar breytingar á skaðabótalögunum. Annars vegar að í 4. mgr. 5 gr. laganna verði kveðið á um að eingöngu eingreiddar örorkubætur almannatrygginga, þ.e. sem eru meira en 10% og minna en 50%, dragist frá bótum til tjónþola í stað greiðslna frá almannatryggingum eins og í gildandi lögum. Þá er í 2 gr. frumvarpsins lagt til að orðunum „án frádráttar“ verði bætt við ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. laganna til að koma í veg fyrir að bætur frá almannatryggingum og lífeyrissjóði verði dregnar frá bótum til eftirlifandi maka, eins og ákvæðið er samkvæmt gildandi lögum. Með þessu verður komið í veg fyrir frádrátt frá bótum í þeim tilvikum þegar um er að ræða alvarlega slasaða einstaklinga og ekkjur og ekkla.

Virðulegi forseti. Þessi lagabreyting hefur í nokkur ár verið í einhverjum velkingi á vettvangi allsherjarnefndar. Samstaða náðist um það í nefndinni nú að gera þessa breytingu á skaðabótalögunum. Fyrri tilraunir til breytinga hafa strandað á því að menn hafa staðnæmst við ýmis fleiri atriði sem þyrfti mögulega að taka á í skaðabótalögunum. En það var niðurstaða nefndarmanna nú að ekki væri rétt að láta þetta brýna réttlætismál bíða slíkrar heildarendurskoðunar. Að mínu áliti er einnig nokkur hugsunarvilla í þeirri framkvæmd sem verið hefur. Í framkvæmdinni hingað til hefur það verið þannig að bætur frá almannatryggingum hafa verið látnar koma til frádráttar bótum sem tjónvaldur á að greiða tjónþola vegna tjóns sem hann er bótaskyldur fyrir. Auðvitað þarf ávallt að hafa samspil milli almannatrygginga og skaðabótaréttar en mér finnst vera byrjað á vitlausum enda þarna. Það er mun eðlilegra að tjónvaldur bæti ávallt tjón sem hann veldur og að þær greiðslur sem hann innir þannig af hendi komi þá frekar til frádráttar bótum úr almannatryggingakerfi, úr hinum sameiginlegu sjóðum landsmanna. Að sá sem sannanlega valdi tjóni greiði fyrir það að öllu leyti en að hinir sameiginlegu sjóðir landsmanna njóti þess þá í því að á móti dragist frá bótum almannatrygginga.

Virðulegur forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál. Það hefur beðið nógu lengi og mikilvægt að það fari hratt í gegnum þessa umræðu og áfram til 2. umr. Þar sem málið er flutt af allsherjarnefnd er samkvæmt þingsköpum ekki skylda til að vísa því til nefndar. Ég geri ekki ráð fyrir að því verði vísað til nefndar og nefndin gerir ekki ráð fyrir því heldur þannig að við búumst við hröðum framgangi málsins í gegnum þingið.

Ég þakka nefndarmönnum öllum góða vinnu við málið og skilvirk vinnubrögð sem leiddi til þess að við gátum tekið frekar fljótt á þessu máli og tekið ákvörðun um það í nefndinni að flytja þetta frumvarp.

Að síðustu vil ég einnig nefna að ég tel að sá háttur sem hefur verið að komast á í nokkrum málum, í miklum þjóðþrifamálum á síðustu vikum að þingnefndir ýmist flytji mál, sem horfir til mikilla framfara, eða hlutist til um það að koma í gegn löngu tímabærum þingmannamálum eins og ábyrgðarmannafrumvarpinu sem rætt var hér á undan, sé til mikillar fyrirmyndar og sýni styrk þingræðisins en geri líka kröfur til þingsins. Það kallar auðvitað á að þingið hafi enn sterkara starfslið og enn betur búið starfslið til að styðja við virka löggjafarstarfsemi af hálfu þingsins eins og þessi mál bera vitni um.