136. löggjafarþing — 112. fundur,  25. mars 2009.

skaðabótalög.

438. mál
[01:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir miður að hv. þingmaður skuli tala svona niður til mín. Ég má alveg gagnrýna það að hér sé verið að ræða klukkan hálftvö að nóttu mjög flókið mál. Ég sem tryggingafræðingur átta mig á hvað þetta er flókið mál og hvað þetta getur haft mikil áhrif út og suður. Ég sat fund nefndarinnar og það var heilmikið athugavert við þá vinnu sem þar var unnin, ég verð bara að segja eins og er. Ég hlýt að gagnrýna það. Ég frábið mér, herra forseti, að hér hafi ekki verið fluttar málefnalegar ræður í allan dag, því sit ég ekki undir. Ég stend við hvert einasta orð sem ég hef sagt hér í ræðustólnum og mótmæli þessu. Ég kann ekki að meta það að talað sé niður til fólks með þessum hætti. Það getur vel verið að hv. þingmaður sé gáfaðastur af öllum og bestur í öllum fögum og viti allt best en hann þarf ekki endilega að segja öllum það.

Það mál sem hér um ræðir, eins og ég kem inn á á eftir, er mjög flókið. Það eru eingreiðslur sem menn fá, það er miðað við 4,5% vexti sem fólk nær yfirleitt ekki og fólk getur ekki ávaxtað þessa peninga, það er mínusinn. Plúsinn er að kannski er miðað við of litlar bætur frá Tryggingastofnun, of hátt tjón, fyrir utan það að maðurinn ber áhættuna af tjóninu því að örorkumatið er alltaf byggt á líkum. Þegar maður er metinn 45% öryrki þá eru 45% líkur á því að hann verði algjör öryrki. Það er mjög erfitt að meta það og kemur ekki í ljós fyrr en að ævilokum hvernig til tókst.

Þetta er því ekki léttvægt mál sem við getum kastað höndunum til klukkan hálftvö að nóttu, og að það sé einhvern veginn mér að kenna að mörg mál hafi verið á dagskrá í dag og mjög ítarleg umræða orðið, (Forseti hringir.) ég frábið mér það.