136. löggjafarþing — 112. fundur,  25. mars 2009.

skaðabótalög.

438. mál
[01:37]
Horfa

Frsm. allshn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég rakti áðan í fyrra andsvari varð það niðurstaða nefndarinnar að þrátt fyrir öll þau atriði sem hv. þingmaður rekur hér, sem er auðvitað alveg rétt — að útreikningur skaðabóta er ávallt háður mikilli óvissu í ljósi framtíðartekjuöflunarmöguleika, í ljósi ávöxtunar, í ljósi eingreiðslu, í ljósi allra þessara þátta sem hann rekur alveg réttilega — er það engu að síður mat nefndarinnar, í ljósi fyrirliggjandi umsagna og allrar þeirrar vönduðu vinnu sem farið var í í nefndinni á árunum 2005–2006, að eðlilegt væri að taka sérstaklega á þessu mikla réttlætismáli og taka það út fyrir sviga ef svo má segja.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að auðvitað á að taka þetta heildarsamspil lífeyriskerfisins, almannatryggingakerfisins og skaðabótaréttarins til endurskoðunar og ég held að margar hugmyndir sem t.d. aðilar vinnumarkaðarins hafa verið að þróa sín á milli um breytingar á lífeyriskerfinu geti verið mjög athyglisverðar í þessu samhengi og t.d. hvað það varðar að meta örorku upp á við en ekki niður á við.

Ég tel í sjálfu sér ekki þörf á að hafa fleiri orð um tilurð þessa máls eða þann vandaða bakgrunn sem að baki því liggur. Hv. þingmaður kann að hafa þá skoðun að þetta mál hefði þurft aðra og vandaðri meðferð. Nefndin var ekki þeirrar skoðunar og hans ágætu flokkssystkin, sem sitja í nefndinni, voru einhuga í þeirri afstöðu að þetta mál væri fullkannað og vel unnið, um það var full eining í nefndinni. Það var mat nefndarinnar. Hv. þingmaður kann að hafa annað mat og til þess hefur hann heimild og ég átel hann ekkert fyrir það. Hann má hafa þær skoðanir eins og hann vill. Þetta er mat nefndarinnar og hann verður þá að ráðstafa atkvæði sínu eins og hann telur eðlilegt í ljósi undirbúnings málsins og forsögu þess.