136. löggjafarþing — 112. fundur,  25. mars 2009.

skaðabótalög.

438. mál
[01:41]
Horfa

Frsm. allshn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er ekki rétt að ég hafi ekki sést í salnum í dag, ég er búinn að vera hér margoft og síðan hef ég fylgst með umræðum í gegnum vefinn í öðrum störfum í kvöld.

Ég tel fullkomlega eðlilegt að maður hafi orð um það, ef maður vill, hvernig umræður eru í þinginu. Ég sé ekki að ég þurfi að biðjast afsökunar á því gagnvart nokkrum manni og ég skil ekki þetta upphlaup og þennan æsing. Það er málfrelsi í þingi og þingmenn hljóta að mega tjá skoðanir sínar og í því felst enginn áfellisdómur. Hv. þingmaður, sem hér var að ræða áðan, gerði athugasemd sem mátti skilja að lyti að tímalengd umræðu. Ég benti einfaldlega á að það fer ekkert fram hjá þeim sem fylgst hafa með umræðum hér í kvöld að ræður Sjálfstæðisflokksins hafa verið óvenjulangar og efnisríkar. Ég var bara að vísa til þess.