136. löggjafarþing — 112. fundur,  25. mars 2009.

skaðabótalög.

438. mál
[01:44]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki gera athugasemd í þeim skilningi við fundarstjórn forseta enda tel ég að forseti hafi stjórnað þessum fundi af stakri prýði.

Ég vildi hins vegar vekja athygli á því að fyrir tólf tímum eða svo fór fram ágæt umræða hér í þinginu um dagskrána og eins og hér hefur komið fram eru 26 mál á dagskrá. En í þeirri umræðu sem fór fram fyrir hálfum sólarhring héldu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins því talsvert fram að það væru fá merk mál á dagskrá. Því má kannski segja sem svo að það hafi komið á óvart að umræðan hafi tekið jafnlangan tíma og raun ber vitni.

Hér hafa vissulega verið efnisríkar umræður og ég ætla ekki að gera lítið úr því, en það kom líka á óvart að þingmennirnir þyrftu, kannski tveir til þrír, að lesa upp nefndarálit sem aðrir höfðu lesið upp áður. Ekki er ég að gera lítið úr nefndarálitum sem án efa hafa verið innihaldsrík (Forseti hringir.) og ekki veitir af að nefna nokkrum sinnum. Það er kannski þetta sem mér finnst skipta máli því að við samþykktum, virðulegi forseti, að vera (Forseti hringir.) fram yfir miðnætti. Nú er rétt komið fram yfir miðnætti (Forseti hringir.) og ég held að við eigum kannski þó nokkurn tíma eftir enn þá.