136. löggjafarþing — 112. fundur,  25. mars 2009.

skaðabótalög.

438. mál
[01:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir það að ræða þetta mál. Í nefndinni reifaði ég nokkur — ég var staddur þar af tilviljun sem varamaður — mál sem skipta máli í þessu tilefni. Þau eru fjöldamörg og ég er ekki viss um að ég geti rakið þau öll núna.

Í fyrsta lagi. Þegar menn verða fyrir tjóni þarf að skilja á milli tjónvalds og tjónþola. Það er mjög mikilvægt. Klippa þarf á milli þeirra með einni aðgerð, einni summu, það þarf einhvern veginn að gera málið upp þannig að tjónþoli þurfi ekki að vera betlandi á tjónvaldi alla tíð. Þetta er fyrsta atriðið og það skiptir verulegu máli.

Í öðru lagi er spurningin: Hver er áhætta tjónþolans? Hún er umtalsverð í núverandi kerfi og menn ætla ekkert að laga það. Dæmi: Maður er metinn 30% öryrki sem segir að það eru 30% líkur á því að hann verði 100% öryrki. Kannski verður hann það ekki. Kannski vinnur hann fulla starfsævi og veikist ekki neitt. Þá græðir hann á tjóninu. En svo getur hann orðið 100% öryrki daginn eftir úrskurðinn og þá tapar hann 70%. Hann er látinn bera þessa áhættu, herra forseti.

Í tjóninu er reiknað með 4,5% vöxtum umfram verðbólgu, ekki umfram laun, herra forseti. Það er nánast útilokað fyrir mann, einstakling, að ná 4,5% vöxtum umfram laun en það er það sem verið er að tryggja. Maðurinn sem verður fyrir tjóni missir laun. Þess vegna á ekki að reikna með nema í hæsta lagi 2% vöxtum umfram laun. Það mundi hins vegar þýða að tjónaupphæðin mundi stórhækka. Við erum að tala um afvöxtun á þessari upphæð í 30–40 ár hjá ungu fólki og enn þá meira hjá mjög ungu fólki, börnum. Þá erum við að tala um jafnvel 60 ár, 70 ár sem þarf að afvaxta peningana á. 2% vextir í staðinn fyrir 4,5% getur þýtt tvöföldun á upphæðinni eða meira en það. Þá áhættu er maðurinn látinn bera. Enginn veltir vöngum yfir því, ég veit ekki til þess að nefndin hafi rætt það. Mér finnst þetta ábyrgðarleysi.

Og svo það sem er verst, þegar búið er að reikna út þessa upphæð, segjum 7 millj., fær maðurinn hana inn á reikning í einu lagi. Allt í einu er hann orðinn ríkur og hann eignast fullt af vinum. Mín reynsla segir mér það, herra forseti, að á mjög skömmum tíma verða þessar 7 millj. farnar og það sem meira er, maðurinn eru yfirleitt kominn með skuld vegna þess að hann er búinn að ofkeyra í neyslunni og er kominn með skuld. Því miður, ég er búinn að sjá þessi dæmi aftur og aftur. Það getur vel verið að ég sé með forsjárhyggju eða eitthvað slíkt en þetta er það sem maður sér. Þetta er áhættan sem maðurinn ber og ég sé ekki að nefndin hafi neitt skoðað það, ekki neitt. Það er svo léttúðlega skautað yfir þetta allt saman að það er með ólíkindum. Þess vegna sagði ég að það er ekki gott að ræða þetta kl. 2 að nóttu.

Þetta eru örfá atriði sem ég vil nefna um oftryggingu og vantryggingu í þessu dæmi og mér finnst það ekki einfalt mál að taka afstöðu til þess. Menn tala ekki einu sinni við tryggingafræðinga sem þó eru sérfræðingar á þessu sviði og það vill svo til að ég er tryggingafræðingur. Þess vegna get ég talað um þetta sem ég efast um að aðrir nefndarmenn geti með sama hætti og tala ég þá ekki niður til þeirra eins og sumir gera hérna. Þetta er með ólíkindum. Það getur fokið í mann þegar maður heyrir svona ummæli eins og maður sé einhver fábjáni.

Það sem hefur verið lagt til og ég hef lagt til er að þessi eingreiðsla sem skilur á milli tjónþola og tjónvalds verði greidd inn í sjóð, örorkutryggingagreiðslusjóð, sem gæti tengst áfallatryggingasjóði sem verkalýðshreyfingin ásamt með Samtökum atvinnulífsins er að byggja upp í kringum lífeyrissjóðina. Hann taki að sér endurhæfingu og virkni sjóðfélagans og komi í veg fyrir þá hryllilegu þróun á Íslandi sem er hve öryrkjum fjölgar mikið. Það vill enginn vera öryrki en kerfið hefur brugðist þessu fólki gersamlega hvað varðar endurhæfingu. Endurhæfingin er í skötulíki. Öryrkjum fjölgar sífellt og það er ekkert gert í því. Þetta er einn angi af því, menn ætla ekki að gera neitt í málunum. Menn komast bara að einhverri niðurstöðu — bang, eitthvað gert og það er smíðaður einn plástur í viðbót. Þetta er ekkert annað en plástur sem menn eru að setja hérna. Allt í einu gera menn einhverjar breytingar og laga eitthvað og um leið búa þeir til vanda annars staðar. (Gripið fram í: Hvar?) Það er nefnilega málið, hvar? Það sé ég ekki, ég hef ekki haft tíma til að fara í gegnum málið. Ég legg því til, herra forseti, að málinu verði vísað til nefndarinnar þó að menn þykist svo borubrattir að þeir séu búnir að fara yfir málið alveg í hörgul, og til nefndarinnar verði boðið tryggingafræðingum báðum megin frá, þeim sem reikna út svona tjón fyrir tjónþola og svo hinum sem greiða þau út fyrir tryggingafélögin. Það er nefnilega þannig að allt þetta er greitt af einhverjum, allar bætur eru greiddar af einhverjum. Í þessum tilfelli eru það yfirleitt bíleigendur sem borga hærri iðgjöld en ella.

Menn geta sagt að tryggingafélögin eigi að borga þetta. Vissulega, en þau taka alltaf nettóiðgjaldið af hinum tryggða og þó að það sé mikil samkeppni á meðal þeirra verður það alltaf á endanum tryggingatakinn sem borgar þetta, þ.e. almenningur í landinu með skyldutryggingum sínum eða skipaútgerðir sem tryggja áhafnir og annað slíkt, atvinnurekendur. Það er alltaf einhver sem greiðir og þetta er svo mikið atriði að hvorki sé um oftryggingu að ræða né vantryggingu. Vantrygging er slæm vegna þess að hún kemur niður á tjónþolanum. Oftrygging er slæm vegna þess að hún kemur niður á almenningi og lífskjörum í landinu. Því er svo mikilvægt að finna á þessu réttláta og raunhæfa lausn. Það gerist ekki nema með því að vextirnir verði miklu lægri, 2%, þ.e. upphæðin miklu hærri og miðað sé við raunveruleg laun hjá fólki. Til dæmis ef börn verða öryrkjar að þá séu ekki miðað við lágmarkslaun heldur einhver meðallaun í þjóðfélaginu. Það liggur náttúrlega fyrir að barn sem verður öryrki og lendir í tjóni mundi ná einhverjum meðallaunum að meðaltali. Það mundi fara menntaveginn með ákveðnum líkum, það mundi fá ákveðnar tekjur með ákveðnum líkum. Þetta er allt hægt að reikna út og það á að miða við meðallaun en ekki lágmarkslaun.

Það er svo margt sem þarf að laga í þessu dæmi að mér finnst allt að því verið að kasta til höndunum hvernig vinnubrögðin eru. Ég legg til að þetta mál fari til nefndarinnar aftur og hún sendi það til tryggingafræðinga báðum megin frá sem reikna þetta út og þeir fari í gegnum það hvort ekki sé til einhver lausn sem lagar þau vandkvæði sem ég gat um, eingreiðsluna, það að menn séu búnir með upphæðina innan skamms tíma, einnig að vextirnir séu nær raunveruleikanum, 2% í staðinn fyrir 4,5% og loks að miðað sé við meðallaun en ekki lægstu laun. Hér er svo margt sem þarf að laga. Mér finnst þetta ekki góð vinnubrögð þó að ég hafi ekki sökkt mér neitt djúpt ofan í málið, herra forseti, enda klukkan tvö að nóttu, og málið hefur ekki legið lengi inni í þinginu. Það eru fjölmörg mál sem þarf að vinna og gefst ekki mikill tími til að sökkva sér ofan í fræðileg frumvörp eins og þetta.