136. löggjafarþing — 112. fundur,  25. mars 2009.

skaðabótalög.

438. mál
[01:58]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að mótmæla harðlega þeim orðum hv. þingmanns að hér sé skautað yfir mál. Það kom skýrt fram í vinnu nefndarinnar og orðum formanns hv. allsherjarnefndar áðan að menn telja mikla þörf á því að endurskoða skaðabótalöggjöfina. Meðal annars með tilliti til þeirra þátta sem hv. þm. Pétur Blöndal hefur nefnt.

Það er hins vegar algert réttlætismál að leiðrétta þann ágalla, sem varð til við það er menn nú kalla handvömm og mistök í lagasmíðinni frá 1998 og bitnar mjög illa á takmörkuðum hópi sem er mjög illa settur, þ.e. mjög illa slösuðum öryrkjum, jafnvel frá barnsaldri, og ekkjum og ekklum sem misst hafa maka sinn í slysi. Þetta er það sem frumvarpinu er ætlað að bæta, ekkert annað. Það er ekki mjög flókið mál. Það er ekki verið að breyta margfeldisreglunni, það er ekki verið að breyta reglum um útreikning örorkumats. Það er ekki verið að endurskoða útreiknireglu bóta hjá tryggingafélögunum, ekki verið að breyta ákvörðunum um ávöxtunarkröfu og ekki verið að taka á áhættu tjónþola eða margt annað það sem gera þarf. Ég get verið hv. þingmanni sammála um að þessi atriði og jafnvel mörg, mörg fleiri þurfi að athuga og vinna upp á nýtt í skaðabótalöggjöfinni en ég get ekki verið sammála hv. þingmanni um það að við eigum að bíða í önnur 10 ár til að leiðrétta það sem við erum hér að gera. Það má ekki gerast. Það er allt í lagi að kalla þetta plástur, jú, við erum að plástra. Við erum að leiðrétta misrétti og mistök í lagasetningu.

Hv. þingmaður sagði að ef eitthvað væri bætt á einum stað kæmi upp skaði annars staðar og spurði hvar skaðinn lenti og nefndi bílatryggingar og þá sem greiða iðgjöld bílatrygginga. Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því að eitt af því sem fram kom fyrir nefndinni er að afskaplega fá tjón valda jafnmikilli örorku og hér um ræðir, þ.e. yfir 40–50% örorku. Á árunum 1993–1999 voru að meðaltali sex tilfelli á ári sem höfðu í för með sér meira en 40% varanlega örorku. Jafnvel þótt reiknað sé með mikilli fjölgun slysa í takt við fjölgun bíla og íbúa er alveg ljóst að þessi fáu tilfelli á ári munu ekki skipta sköpum varðandi iðgjöld í útreikningi tryggingafélaganna.

Það sem er verst í þessu dæmi er að tryggingafélögin — og það var líka upplýst fyrir nefndinni vegna þess að nefndin kastaði ekki til höndunum við undirbúning þessa máls — láta sér ekki lengur nægja að draga útreiknaðar bætur langt fram í tímann frá eingreiðslunni til þeirra sem eru metnir 40 eða 50% öryrkjar heldur eru þau jafnvel farin að seilast niður í 15% örorku. Eins og hér hefur komið fram í kvöld er þetta ekki einungis örorkulífeyririnn heldur allar aðrar bætur, jafnvel þær sem eru háðar hjúskaparstöðu og hversu margir eru í heimili hjá viðkomandi. Eins geta þessar bætur horfið einn góðan veðurdag af reikningi viðkomandi vegna þess að lögum hefur verið breytt hér á hv. Alþingi. Tekjur viðkomandi, ef mönnum skyldi auðnast það að afla sér einhverra tekna, dragast líka frá þeim bótum sem þó er búið að reikna honum til tekna út lífið, þar á meðal vaxtatekjur af þeim bótum sem hann fær með eingreiðslunni. Það er svo hlálegt, herra forseti, að ekkjur og ekklar geta endað í skuld við tryggingafélögin vegna þeirra ímynduðu bóta sem látinn maki hefði fengið hefði hann lifað og dregnar eru frá skaðabótunum. Það er þetta misrétti sem við erum að leiðrétta og það er ekki verið að kasta höndunum til neins hér, herra forseti.

Ég vil nefna eitt í viðbót sem þarf að laga og vil taka undir það sem hv. þm Pétur Blöndal sagði um að mjög mikilvægt væri að breyta þessu með eingreiðsluna og tengja útgreiðslu skaðabóta bótum lífeyrisgreiðslna í stað eingreiðslunnar. Ég þekki sjálf dæmi þess hvernig stórar og miklar slysabætur hafa ekki til bætt viðkomandi lífið heldur gert honum það erfiðara. Þannig að ég tek undir það að við endurskoðun á þessu regluverki og skaðabótalöggjöfinni þarf að horfa til þess að greiða slysabætur ekki með eingreiðslu.

Ég vil nefna eitt atriði til viðbótar, sem hv. þingmaður nefndi ekki, og það er að í útreikningi tryggingafélaganna á slysabótum er ekki tekið tillit til þeirra auknu útgjalda sem alvarleg fötlun og örorka hefur í för með sér. Það er ekki metið inn í bæturnar, inn í framfærslukostnaðinn, heldur aðeins tekjuöflunarmöguleikarnir sem viðkomandi hefur til framtíðar og það jafnvel með mjög umdeilanlegum hætti, eins og við höfum séð á dæmum um börn sem slasast illa. Þannig að margt þarf að athuga í þessari löggjöf og enn fleira sem þarf að athuga í framkvæmd löggjafarinnar. En, herra forseti, við ætlum okkur ekki þá dul að geta gert það á örfáum dögum og ég verð að segja að þrátt fyrir að lögmennirnir á nefndasviði Alþingis séu miklir kraftaverkamenn mundi heildarendurskoðun á skaðabótalöggjöfinni taka ansi mikið af starfskröftum þeim sem þar eru og þeir gerðu ekki mikið meira á meðan.

Að lokum vil ég nefna það að öll þessi ár frá því að þessi mistök voru gerð við lagasetninguna, hafa þrír nafngreindir hæstaréttarlögmenn og kannski fleiri, sem hafa unnið fyrir tjónþola í skaðabótamálum reynt að rétta hlut þeirra. Þeir hafa margoft komið til Alþingis, til ráðuneytis, til að reyna að fá leiðréttingu, ekki sinna mála heldur þeirra sem lögin misgera gagnvart. Ég hlýt að þakka þeim fyrir staðfestu þeirra í málinu og ég leyfi mér að vona að hv. þm. Pétur Blöndal treysti samflokksmönnum sínum í hv. allsherjarnefnd sem eru einróma á þessu máli og hafa verið alveg frá því að upplýst var um afleiðingar lagasetningarinnar. Ég vil minna á að það mun hafa verið á árinu 2005 sem hv. þm. Bjarni Benediktsson, þáverandi formaður allsherjarnefndar, flutti samsvarandi nefndartillögu hér inni í þinginu. Þinginu auðnaðist ekki að ljúka afgreiðslu þess máls og ég vil skora á hv. þm. Pétur Blöndal að vinna með okkur að því að bæta órétt sem þarna er á ferð og svo skulum við taka höndum saman um að endurskoða skaðabótalöggjöfina, við höfum bara ekki tíma til þess núna fyrir vorið.