136. löggjafarþing — 112. fundur,  25. mars 2009.

lyfjalög.

445. mál
[02:11]
Horfa

Frsm. allshn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er eitt af þeim málum sem ég tel að skipti fjölskyldurnar í landinu miklu máli, þá sérstaklega sjúklinga og aldraða. Þetta frumvarp á þskj. 787, 445. mál, er flutt af heilbrigðisnefnd. Um er að ræða breytingu á 42. gr. lyfjalaga sem fjallar um bann við veitingu afsláttar á lyfjum þannig að bannið eigi ekki við um smásala, heldur einungis lyfjaframleiðendur og lyfjaheildsala. Nefndin flutti fyrir jól frumvarp sem frestaði gildistöku þessa banns hvað varðar smásalana enda var nýtt greiðsluþátttökukerfi lyfja í smíðum. Útséð er að það kerfi verður ekki tilbúið 1. apríl og lagt er til að ákvæði um smásalana verði frestað enn á ný. Heilbrigðisnefnd hefur áður flutt samsvarandi frestun á gildistöku þess að bannað væri að heimila afslátt af smásölum á lyfseðilsskyldum lyfjum og nú leggur hv. heilbrigðisnefnd til að síðari málsliður 13. gr. laganna, sbr. lög nr. 120/2008, skuli orðast svo:

„Þó skal ákvæði 10. gr., hvað varðar smásöluaðila, taka gildi 1. janúar 2010.“ Og 2. gr.: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Með frumvarpinu er lagt til að frestað verði enn hluta gildistöku 10. gr. laga nr. 97/2008, um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994. Frestunin varðar eingöngu smásölu lyfja.

Gildistökunni hefur í tvígang verið frestað, fyrst með lögum nr. 120/2008, um breytingu á lögum nr. 97/2008, um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum, og þá til 1. janúar 2009. Með lögum nr. 146/2008 var gildistöku ákvæðisins að nýju frestað til 1. apríl 2009. Þá tók Hæstiréttur nokkra daga. Þegar það var gert var í undirbúningi nýtt greiðsluþátttökukerfi lyfja og ráðgert að það kæmi til framkvæmda í síðasta lagi 1. apríl 2009. Jafnframt var talið mikilvægt að afnám afslátta af lyfjum í smásölu héldist í hendur við innleiðingu hins nýja greiðsluþátttökukerfis. Nú er ljóst að það mun ekki líta dagsins ljós þann 1. apríl nk. og er því lagt til að gildistökunni verði frestað að nýju til áramóta svo svigrúm skapist til að ljúka vinnu við nýtt greiðsluþátttökukerfi.

Hæstv. forseti. Hér er vísað til þeirrar nefndar sem hv. Pétur H. Blöndal hefur leitt í nokkurn tíma til að endurskoða þátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði og heilbrigðisþjónustu. Nú mun þessi nefnd skila af sér en það verður haldið áfram að vinna með þann þátt sem snýr að lyfjunum og nú vonum við að nýtt kerfi hafi tekið gildi fyrir 1. janúar 2010, a.m.k. leggur nefndin til að þessi ákvæði um bann við heimild til að smásalar veiti afslátt af lyfseðilsskyldum lyfjum verði ekki sett á heldur frestað til 1. janúar 2010.

Hæstv. forseti. Þar sem nefndin flytur málið tel ég rétt að vísa því til 2. umr. og afgreiðslu. Það er ekki ástæða til að senda málið til umsagnar. Nefndin er einhuga um að endurflytja frumvarpið í sömu mynd og áður.