136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

tilkynning frá þingmanni.

[13:32]
Horfa

Geir H. Haarde (S):

Herra forseti. Ég hef beðið um orðið við þetta tækifæri þar sem þetta er síðasti dagurinn minn á Alþingi, a.m.k. að sinni. Ég læt af störfum sem formaður Sjálfstæðisflokksins næstkomandi sunnudag og verð síðan fjarverandi það sem eftir lifir þingtímans af persónulegum ástæðum.

Ég hef átt sæti á Alþingi sl. 22 ár, þar af verið þingflokksformaður í sjö ár og setið á ráðherrabekkjunum í tæp 11 ár. Það eru mikil forréttindi að fá að gegna störfum svo drjúgan hluta starfsævinnar á vettvangi elstu og æðstu stofnunar landsins. Mér þykir afar vænt um þessa stofnun og vil að sómi hennar sé sem mestur. Mér þykir miður að ekki skuli hafa náðst í þinginu samkomulag um þinglok fyrir kosningar og að hætta sé á alvarlegum deilum, m.a. um sjálfa stjórnarskrána. Það mun koma í annarra hlut að greiða úr þeim deilum og ég heiti á alla að standa þannig að því að heiður Alþingis verði ekki fyrir borð borinn.

Að svo mæltu þakka ég alþingismönnum öllum fyrir samstarf liðinna ára og sömuleiðis skrifstofustjóra og starfsfólki þingsins. Ég óska Alþingi allra heilla sem og þeim sem hér eiga eftir að starfa í framtíðinni.