136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

tilkynning frá þingmanni.

[13:34]
Horfa

Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti vill við þetta tækifæri þakka hv. þm. Geir H. Haarde fyrir góð orð og góðar óskir til Alþingis og alþingismanna. Mér er kunnugt um að hann getur ekki sótt þingfundi, eins og fram kom í ræðu hans, í næstu viku þar sem hann er á förum til útlanda vegna læknismeðferðar. Ég óska honum góðs bata og að hann komist fljótt og vel yfir veikindin og geti tekið til við ný viðfangsefni með óskertum kröftum.

Það eru vissulega tímamót þegar forustumaður flokks kveður Alþingi, fyrrverandi forsætisráðherra og þingmaður til 22 ára. Hann hefur sannarlega sett svip sinn á störf Alþingis þá rúma tvo áratugi sem hann hefur átt hér sæti. Ég veit að ég mæli fyrir hönd okkar alþingismanna allra þegar ég þakka samstarfið við hann og óska honum alls góðs í framtíðinni og honum og fjölskyldu hans farsældar á komandi árum.