136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[13:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Nú er svo komið í þinghaldinu að það stefnir í þinglok og því er títt spurt í þinginu hvaða mál áhersla verði lögð á að klára fyrir þinglok. Í tilefni af því að hæstv. forsætisráðherra er til svara vil ég beina spurningum til hennar varðandi forgangsatriði ríkisstjórnarinnar í þessu sambandi. Ég minnist þess að fyrir sennilega tveimur vikum gat hæstv. forsætisráðherra þess á blaðamannafundi að allmörg mál hefðu verið afgreidd út úr ríkisstjórn og þar af væru níu mál sem vörðuðu hag fyrirtækja og heimila. Ég velti fyrir mér hvort þessi listi, sem áður var níu mál, hafi lengst, hvort fram hafi komið eða væntanleg séu ný mál af hálfu ríkisstjórnarinnar sem varða hagsmuni fyrirtækja og heimila. Ég óska þess að hæstv. forsætisráðherra svari því hvort þau mál sem varða hagsmuni fyrirtækja og heimila séu ekki þau mál sem ríkisstjórnin leggur mest kapp á að klára fyrir þinglok.

Ástæðan fyrir því að ég spyr á þessum degi er ekki síst sú að í sjónvarpsfréttum kl. 10 í gærkvöldi var rætt við formann Framsóknarflokksins, Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem kalla má guðföður ríkisstjórnarinnar, og þar gagnrýndi hann ríkisstjórnina harðlega fyrir skort á aðgerðum til að styðja heimili og fyrirtæki. Hann talaði um að það vantaði róttækari aðgerðir til að bregðast við efnahagsvandanum. Hann sagði orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Við þessar aðstæður er spurningin ekki sú hvernig gangi að koma í gegn ýmsum almennum málum sem vel geta beðið fram yfir kosningar. Spurningin er sú hvers vegna ekki er búið að koma með þessar bráðaaðgerðir til að taka á vandanum.“