136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[13:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég vil orða spurningu mína aðeins skýrar. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir upplýsingar um listann sem kynntur hefur verið fyrir formönnum og forustumönnum stjórnmálaflokkanna og fagna því að enn eru viðræður í gangi um framgang mála á þinginu. Ég held að ég geti talað fyrir munn okkar þingmanna allra þegar ég segi að við viljum í störfum okkar hér leggja höfuðáherslu á að klára þau mál sem með skýrum hætti hafa jákvæð áhrif á stöðu efnahagsmála og hagsmuni heimila og fyrirtækja í landinu.

Eins og hæstv. forsætisráðherra vék að eru fleiri ágreiningsmál uppi í þinginu og ég spyr, og vildi kalla eftir afstöðu forsætisráðherra til þess, hvort ekki sé tilefni til þess, í ljósi þess að hér eru að bresta á kosningar eftir nákvæmlega mánuð og fáir dagar eru eftir af þingstörfum, að við einhendum okkur í þau mál sem varða hagsmuni fyrirtækja og heimila og geymum önnur ágreiningsmál til næsta þings.