136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

losunarheimildir á koltvísýringi í flugi.

[13:52]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Við höfum undirgengist ákveðnar skuldbindingar, í fyrsta lagi 1992 þegar við undirrituðum loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna og svo í framhaldi af því, og skuldbindingar okkar ganga út á það að við ætlum að gera það sem í okkar valdi stendur til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, ekki hvað síst frá samgöngum. Það gildir um allar samgöngur.

Meðal þess sem ríkisstjórnin og sérfræðinganefnd sem hefur starfað á vegum umhverfisráðuneytisins eru að skoða er á hvern hátt við getum dregið úr losun frá samgöngum. Þar er flugið meðtalið og samgöngur á vegum heyra líka þar undir.

Samgönguráðuneytið er það ráðuneyti sem kemur ekki síst að því hvernig við komum til með að geta unnið í sameiningu að þeim markmiðum okkar að draga úr losuninni. Undanþáguheimildir frá þessum ákvæðum eru ekki vinsælar, get ég sagt hv. þingheimi, og við Íslendingar (Gripið fram í.) komum ekki (Forseti hringir.) til með að fá neinar sérstakar ívilnandi undanþágur sem öðrum þjóðum standa ekki til boða, (Forseti hringir.) ef við erum að tala um sambærilegar aðstæður. (ArnbS: Er ekki …?) (Gripið fram í: Niðurgreiða reiðhjól fyrir landsbyggðina.)