136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

barnabætur.

[14:00]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Íslendingar eru skuldug þjóð og skuldugasta kynslóðin á Íslandi í dag er fólk á aldrinum 25–45 ára, fólk sem hefur börn á framfæri, fólk sem margt hvert hefur misst atvinnuna og fólk sem berst fyrir því að halda íbúðarhúsnæði sínu og fjölskyldu sinnar.

Það vakti því mikla gleði þegar fyrri ríkisstjórn tilkynnti þann 8. desember að uppi væru áform um að hefja mánaðarlegar greiðslur barnabóta á þessu ári. Með þessari yfirlýsingu voru skapaðar miklar væntingar hjá þessu fólki og það sá fram á betri tíð með mánaðarlegum greiðslum barnabóta, en ekki greiðslum fjórum sinnum á ári eins og verið hafði.

Nú er svo komið að núverandi ríkisstjórn hefur gefið út að fallið hafi verið frá þessum mánaðarlegu greiðslum, sem reyndar áttu að hefjast þann 1. apríl næstkomandi — sem er frekar óheppileg dagsetning í ljósi þess að menn hafa hætt við þetta, spurning hvort um eitthvert aprílgabb hafi verið að ræða — en það er gert á þeim forsendum að mánaðarlegar greiðslur hefðu komið verr út fyrir fjölskyldur í landinu og betra sé að viðhalda gamla kerfinu.

Nú spyr ég hæstv. forsætisráðherra, sem átti sæti í síðustu ríkisstjórn: Gerðu þáverandi ráðherrar í ríkisstjórn Íslands sér ekki grein fyrir því hvað þessi kerfisbreyting mundi þýða fyrir þetta fjölskyldufólk? Var það meðvituð ákvörðun að hefja mánaðarlegar greiðslur á barnabótum? Vissu menn hvaða afleiðingar það mundi hafa fyrir barnafólk eða ekki? Það er búið að vekja upp miklar falsvonir hjá barnafjölskyldum í landinu sem er ljótur leikur og við hljótum því að spyrja hæstv. forsætisráðherra, sem átti sæti í síðustu ríkisstjórn: Vissi síðasta ríkisstjórn ekki neitt hvað hún var að gera? Og hvernig ætlar hæstv. ráðherra þá að breyta barnabótakerfinu til hagsbóta fyrir fjölskyldur eða er það virkilega svo að núverandi ríkisstjórn ætli ekki að gera neinar breytingar á barnabótakerfinu (Forseti hringir.) til hagsbóta fyrir barnafjölskyldur í landinu?