136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

barnabætur.

[14:06]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil minna á að hv. þingmaður hóf mál sitt á því að segja að fyrri ríkisstjórn hefði svikið barnafjölskyldur í landinu. Ég var bara að minna hv. þingmann á fortíð hans í þessu efni með sama hætti og hv. þingmaður minnti mig á að síðasta ríkisstjórn hefði svikið þetta að því er varðar barnabæturnar, sem skiptir ekki miklu máli hvort greiddar eru út einu sinni í mánuði eða á þriggja mánaða fresti. (Gripið fram í.) En ef horft er til fortíðar hefðu barnakortin sem Framsóknarflokkurinn lofaði fyrir 8 árum skipt máli fyrir barnafjölskyldur og væru það 50–60 þús. kr. á mánuði fyrir hvert heimili í landinu, ef við þau hefði verið staðið og það hefði munað töluverðu fyrir heimilin.

Ég get líka fullvissað hv. þingmann um það að ef sú sem hér stendur verður í ríkisstjórn eftir næstu kosningar verða barnabæturnar sérstaklega skoðaðar og í þeim mikla niðurskurði sem við þurfum alveg örugglega að fara í á næsta ári (Forseti hringir.) munum við skoða barnabæturnar sérstaklega, m.a. með það í huga að hafa það í forgangi í þeim niðurskurði að hlífa þeim sem helst þurfa á að halda, fólki með lágar og meðaltekjur.