136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

fæðingar í Vestmannaeyjum.

441. mál
[14:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en verð þó að lýsa miklum vonbrigðum með þau. Ég var að vona að ráðherrann hefði betri fréttir að færa Vestmannaeyingum.

Ráðherra talaði um öfluga mæðravernd og ég er ekki að gera lítið úr henni, þvert á móti. En við vitum að í þessum aðstæðum getur brugðið til beggja vona. Ég þekki það af eigin raun að áhættan getur verið mikil og konur enda í keisaraskurði þó að allt líti vel út. Ráðherra talaði um sjúkraflug og eins og hv. þm. Árni Johnsen benti á kemur það ekki að gagni þegar er ófært.

Mig langar að ítreka hvatningu mína til hæstv. heilbrigðisráðherra um að endurskoða þessa ákvörðun og ganga fram fyrir skjöldu með það mál og færa þessa ákvörðun til baka. Mig langar líka til að spyrja hann um samráð við bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum, sem hann nefndi hér áðan — við hittumst nú á flugvellinum í Vestmannaeyjum ekki alls fyrir löngu þegar hann var að kynna sér þessi mál. Er eitthvað nýtt að frétta af þeim viðræðum, sem mér skilst m.a. af fréttum að snúist um þann vilja Eyjamanna og bæjaryfirvalda, að taka yfir rekstur heilbrigðisstofnunarinnar og færa þannig forræði hennar í hendur heimamanna? Ég tel að það gæti verið mikilvægur liður í þessu samhengi vegna þess að ég tel víst að forgangsröðunin yrði önnur ef heimamenn færu með yfirráðin þarna. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort eitthvað sé að frétta af þeim viðræðum sem hann hefur átt við bæjaryfirvöld.