136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

notkun lyfsins Tysabri.

442. mál
[14:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. En ég tek hins vegar eftir því að hann hefur ekki svarað öllum mínum spurningum og vænti þess þá í seinna svari hans varðandi þær spurningar hvaða viðmiðanir eru lagðar til grundvallar þegar ákvörðun er tekin um hvaða sjúklingur fær lyfið og um árlegan kostnað.

Hins vegar er alveg ljóst að hér hefur verið ágætlega og mjög vel staðið að því að innleiða þetta lyf og við höfum verið mjög framarlega í því að gefa sjúklingum með MS kost á því að njóta þess að fá þetta lyf. Hins vegar verð ég að segja það, af því tilefni sem hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra, að ég tel enga ástæðu til þess að bera brigður á það sem fólk er að segja sjálft, hvort sem það er tilfinning eða staðreynd. Í þeim tilvikum sem hafa borist á borð okkar þingmanna, meðal annars í pósti sem barst til okkar allra í síðustu viku, eru dregnar fram ákveðnar spurningar um landfræðilega þætti. Ég tel enga ástæðu til að draga í efa orð fólks sem er sérfræðingar í sínum eigin sjúkdómi og umgengst fólk með sama sjúkdóm, eða að umræður þeirra á milli séu talaðar niður. Ég tala hér í umboði þessa fólks. Það hefur mjög margt haft samband við mig eftir viðtalið við mig sem sýnt var á Stöð 2 á laugardaginn var.

Að sama skapi verð ég líka að segja að ég ber fullt traust til heilbrigðisstarfsmanna og að þeir taki ábyrgar ákvarðanir. En ég verð að leggja áherslu á að upplýsingar séu allar uppi á borðinu og að gagnsæi sé í ákvarðanatöku. Fólk er í þeirri aðstöðu að það horfir væntingaraugum á ákveðna meðferð, ef til vill í sumum tilvikum eru þær væntingar ekki raunhæfar og að það hafi ekki möguleika á að fá þetta lyf en þá verða slíkar upplýsingar að liggja á borðinu og ekki má gefa neinar falsvonir í þeim efnum.

Ég vænti þess að hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) muni svara seinni spurningum mínum hér í seinna svari sínu.