136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

notkun lyfsins Tysabri.

442. mál
[14:38]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er rétt að ég átti eftir að svara tveimur spurningum, annarri sem lýtur að jafnræði og hinni sem snýr að kostnaðinum.

Það sem stjórnar því hverjir fá meðferðina er læknisfræðilegt mat sérfræðinga auk niðurstaðna úr ákveðnum rannsóknum á sjúklingnum. Til þess að fá þessa meðferð þarf að uppfylla atriði sem tilgreind eru nákvæmlega í klínískum leiðbeiningum spítalans og byggjast á gagnreyndum rannsóknum. Það er í þessu sem jafnræðið felst.

Hv. þingmaður spurði enn fremur um heildarkostnað vegna lyfsins Tysabri á árinu 2008. Hann var um 82 millj. kr. en það er ríflega tvöfalt eða þrefalt meiri kostnaður en við hefðbundna lyfjagjöf.

Ég ítreka að þetta er mjög alvarlegur sjúkdómur — mér er fullkunnugt um það — og ég vil taka allar ásakanir eða vangaveltur um að ekki sé eðlilega staðið að málum mjög alvarlega. Það geri ég. Ég hef einnig fengið bréf og ábendingar frá fólki í öngum sínum, annaðhvort sjálft með þennan sjúkdóm eða á aðstandendur sem eru hrjáðir af honum. Ég hef látið gera á þessu rannsókn og er að ganga úr skugga um hvernig að þessum málum almennt er staðið. Ég ber fullt traust til starfsmanna sjúkrahúsanna í þessu efni. En mér finnst eðlilegt að heilbrigðiskerfinu á þessu sviði sem öðrum sé veitt eðlilegt aðhald og það eiga þingmenn að sjálfsögðu að gera líka. Þegar þeir heyra vangaveltur af þessu tagi þá byrja þeir náttúrlega ekki — eins og ég lít á málin — að kveðja sér hljóðs í fjölmiðlum. Þeir byrja á að afla sér upplýsinga. Þeir óska eftir því að málið sé tekið til umfjöllunar í fagnefndum þingsins (Gripið fram í.) og síðan er eðlilegt (Gripið fram í: Svaraðu málefnalega.) að taka málið upp á vettvangi þingsins þegar slíkra upplýsinga hefur verið aflað. Það gerði hv. þm. (Gripið fram í: Svaraðu málefnalega.) Ásta Möller ekki, (Forseti hringir.) því miður.