136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

tillögur Norðausturnefndar.

384. mál
[14:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Þann 23. janúar 2008 skipaði þáverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde nefnd sem var ætlað að fjalla um leiðir til þess að styrkja atvinnulíf í smærri sveitarfélögum á Norðaustur- og Austurlandi og þeirra sem eiga undir högg að sækja í atvinnulegu tilliti. Nefndin starfaði hratt og örugglega og leitaði víða fanga. Í maí sama ár skilaði nefndin af sér skýrslu þar sem niðurstöður vinnunnar voru kynntar og hugmyndir útfærðar til atvinnuuppbyggingar á þessum svæðum. Í skýrslu nefndarinnar er að finna úttekt á þróun og stöðu búsetu og atvinnulífs á svæðinu. Síðan eru raktar nokkrar leiðir sem hið opinbera getur farið til þess að styrkja atvinnulíf á þessum svæðum og þá um leið að treysta búsetu enda er forsenda búsetu að íbúar hafi fasta atvinnu sér og sínum til framfærslu.

Í skýrslunni er gerð tillaga að tveimur þáttum sem gagnast gætu til þess að styrkja stoðir þeirra samfélaga sem þarna eru. Í fyrsta lagi sem varðar flutning opinberra starfa og verkefna til svæðisins og hins vegar styrkingu á innviðum samfélaganna í gegnum þá þætti sem nú þegar eru til staðar, þ.e. samgangna, menntakerfis, heilbrigðiskerfis, löggæslu og flutnings raforku. Allir skipta þessir þættir máli og ljóst að aðeins með samþættingu þeirra allra má treysta búsetuskilyrði á svæðinu til framtíðar litið.

Í fyrirspurn minni hér í dag ætla ég þó að spyrja sérstaklega um atvinnuuppbygginguna, þ.e. flutning opinberra starfa og verkefni til landsbyggðarinnar og uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra. Í viðauka við skýrsluna er að finna 17 útfærðar og kostnaðargreindar hugmyndir um það hvernig fjölga megi opinberum störfum og auka opinbera þjónustu á svæðinu. Þarna er að finna margar forvitnilegar hugmyndir sem skapa ekki aðeins störf á þeim svæðum sem þeim er ætluð staðsetning heldur hafa þau mörg hver möguleika á því að smita út frá sér með þeim hætti að skapa grundvöll fyrir enn þá fleiri störf með því að nýta möguleika svæðanna betur en nú er og ýta undir frumkvöðlakraft og hugmyndaauðgi heimamanna.

Við þekkjum öll stöðuna í atvinnumálum. Þar er síður en svo bjart yfir. Það er mikil þörf á því að skapa hér störf. Í umræddri skýrslu höfum við tilbúnar hugmyndir að störfum á þessum svæðum þar sem hvert starf skiptir máli og það munar um minna. Ég tel því brýnt að forsætisráðherra nýti þær tillögur sem þarna koma fram. Þær fréttir sem við höfum af þessu starfi núna eru að þær tillögur sem voru settar í hendur heimamanna — sérstaklega eru tilnefndar þrjár tillögur — hafa unnist mjög hratt og örugglega. En þær tillögur sem iðnaðarráðuneytið ætlaði að vinna áfram og vísa til Nýsköpunarmiðstöðvarinnar — þar eru margar góðar tillögur, meðal annars tillaga sem er verið að vinna með Alcoa um álframleiðslu — (Forseti hringir.) þessar tillögur eru stopp þó svo að þær muni ekki kosta fé úr opinberum sjóðum.