136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

tillögur Norðausturnefndar.

384. mál
[14:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er alla vega upplifun heimamanna að þetta gangi ekki alveg jafn vel og ráðherra nefndi hér en ég ætla að vona að þetta sé allt saman að hrökkva í gang. Það er samt sem áður tekið fram að sérstaklega þau verkefni sem snúið að menntamálaráðuneytinu hafi gengið vel en að illa hafi gengið að koma á fót Nýsköpunarmiðstöðinni. Þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra til þess að sjá til þess og ýta á eftir því að þessi verkefni verði að veruleika.

Ég tel að það starf sem þarna var unnið hafi verið mjög mikilvægt, þar var unnin mikil greiningarvinna sem mun nýtast mjög vel áfram. Ég held að ef vilji er fyrir því hjá ríkisstjórninni að nýta þarna hugmyndir megi búast við þó nokkuð mörgum störfum sem hægt væri að koma á fót án þess að til þess þyrfti að kosta miklu fé. Ég nefndi hér áðan að verið er að vinna með Alcoa að áframvinnslu áls og það er verkefni sem á að geta skilað mjög góðum árangri til framtíðar.

Ég hvet einnig ráðherra til þess að hafa samband við heilbrigðisráðherra um eflingu á heilabilunardeildinni á Seyðisfirði, sem hefur fengið þá einkunn að vera ein besta heilabilunardeild á landinu og sett verði af stað (Forseti hringir.) sú vinna sem gefin voru fyrirheit um og gert var ráð fyrir fjármagni til á fjárlögum.