136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

tillögur Norðausturnefndar.

384. mál
[14:51]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það svar sem ég gaf hv. þingmanni áðan er byggt á svörum sem við fengum úr viðkomandi ráðuneytum sem áttu að sjá til þess að þessum verkefnum yrði hrint í framkvæmd, m.a. frá iðnaðarráðuneytinu, af því að hv. þingmaður dregur það sérstaklega fram. Ég get ekki séð betur af svörum iðnaðarráðuneytisins en að þar sé allt í fullum gangi eins og í öðrum þeim ráðuneytum sem við fengum svör frá, m.a. það verkefni sem hv. þingmaður nefndi. Nefndin lagði til að Þróunarfélagi Austurlands væri gert kleift að kanna áfram, í samvinnu við aðila á Seyðisfirði og Fjarðaál, hagkvæmni þess að setja upp verksmiðju á Seyðisfirði til að fullvinna álvír sem framleiddur er hjá Alcoa Fjarðaáli og byggja upp tengsl við erlenda úrvinnsluaðila sem hafa þekkingu og reynslu af framleiðsluferlinu og aðgang að sérhæfðum mörkuðum. Þar var gert ráð fyrir einu stöðugildi í það verkefni og ég sé ekki annað af svörunum en að það mál sé í fullum gangi.

Varðandi Heilbrigðisstofnun Austurlands og eflingu heilabilunardeildar þar, er sú skýring gefin á því að hún skuli ekki vera orðin að veruleika að erfitt hefur reynst að koma rekstri stofnunarinnar innan ramma fjárlaga. Því hefur ekki orðið fjölgun á deildinni eins og ætlað var en fjárveitingin nýtist þó til að verja starfsemi deildarinnar gegn frekari niðurskurði. Það er sú skýring sem ég fékk á þessu verkefni. Það voru tvö ný störf á heilabilunardeild Heilbrigðisstofnunar Austurlands og nú er vitað að ekki verður ráðið í þau. Ég tek undir það með hv. þingmanni að auðvitað er mjög mikilvægt að heilabilunardeildin á Heilbrigðisstofnun Austurlands geti starfað með eðlilegum hætti en það hefur verið erfiðleikum bundið að hún starfi innan ramma fjárlaga þannig að sú fjárveiting sem til þess var ætluð (Forseti hringir.) var þá notuð til þess að hægt sé að verja starfsemi deildarinnar gegn frekari niðurskurði.